Fréttasafn



18. nóv. 2014

Erindi SI til Samkeppniseftirlitsins ekki byggt á misskilningi

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI segir erindi samtakanna til Samkeppniseftirlitsins ekki snúast um misskilning. Ef um misskilning sé að ræða hljóti hann að liggja hjá eigendum Reiknistofu bankanna og snúast um það hvernig eigi að meðhöndla upplýsingatækniviðskipti af hálfu bankanna.

SI sendu Samkeppniseftirlitinu erindi vegna óeðlilegrar samkeppnisstöðu Reiknistofu bankanna á upplýsingatæknimarkaði. Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB sagði í yfirlýsingu í gær erindið vera byggt á misskilningi, þar sem virðisaukaskattur leggist ekki á þjónustu sem veitt er fjármálafyrirtækjum, teljist þjónustan eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi banka og fjármálafyrirtækja.

Almar segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að erindið snúi að því að Samkeppniseftirlitið hafi sett skilyrði gagnvart eigendum RB, bönkunum, sem lúta að því að keppinautar Reiknistofunnar eigi að geta treyst því að hún keppi á eðlilegum samkeppnisforsendum. Meðal skilyrða sé að eigendur Reiknistofunnar þurfi að skilgreina í upphafi viðskipta hvernig meðferð virðisaukaskatts á þjónustunni sé háttað.

Almar bendir á að í svörum Reiknistofunnar hafi verið vísað til álits frá Ríkisskattstjóra. „Þá veltum við því fyrir okkur hverjir hafi fengið þetta álit og hverjir hafi lesið það, því þetta eru nýjar upplýsingar fyrir okkur. Ef Reiknistofan hefur fengið þetta álit frá skattyfirvöldum, þá hefur það ekki verið gert opinbert fyrir aðra aðila sem eru að keppa á þessum „viðkvæma samkeppnismarkaði“ svo vísað sé í orð Samkeppnisyfirlitsins.“ Þá segir Almar að hafi skattyfirvöld veitt Reiknistofunni blessun sína fyrir þessari leið, hafi önnur fyrirtæki sem eru í samkeppni við Reiknistofu bankanna ekki fengið að njóta sömu blessunar.