Fréttasafn



8. sep. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Erlent vinnuafl mikilvægt fyrir hagvöxt

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í frétt Morgunblaðsins um erlent vinnuafl þar sem kemur fram að frá 2010 hafi um 19 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar undir 40 ára aldri flutt til landsins en frá því.

Ingólfur segir tölurnar undirstrika að fólk hafi verið að flytjast hingað til starfa. „Þetta hefur verið ungt fólk á vinnualdri sem er hingað komið til að vinna. Tölurnar bera með sér að þetta eru í einhverjum tilvikum fjölskyldur. Fjöldinn undirstrikar hversu mikilvægur þessi aðflutningur hefur verið fyrir hagvöxt, þ.e. fyrir aukna verðmætasköpun íslenska hagkerfisins. Vinnuaflsþörf hagvaxtarins á þessum tíma hefur að stórum hluta verið mætt með erlendu vinnuafli. Stöður hafa verið mannaðar í greinum sem eru í hröðum vexti og hafa knúið hagvöxtinn.“ 

Vinnuaflsþörf mætt í auknum mæli með erlendu vinnuafli

Ingólfur segir þessar tölur árétta jafnframt mikilvægi þess að við séum með opinn og sveigjanlegan vinnumarkað hvað varðar aðflutt vinnuafl. „Við erum lítið hagkerfi og náum ekki að mæta þörf fyrir vinnuafl með innlendu vinnuafli eingöngu. Litið til framtíðar segir þetta líka að við erum komin inn í breytt umhverfi þar sem vinnuaflsþörf verður í auknum mæli mætt með erlendu vinnuafli.“ Hann segir að ein afleiðingin af þessum aðflutningi sé aukin húsnæðisþörf og við því þurfi að bregðast með því að byggja fleiri íbúðir.

Morgunblaðið / mbl.is, 8. september 2022.

Morgunbladid-08-09-2022