Ertu að leita að starfskrafti?
Ertu að leita að starfskrafti? er yfirskrift morgunverðarfundar sem Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins efna til í Kviku, Húsi atvinnulífsins, fimmtudaginn 7. júní kl. 8.30-10.00. Á fundinum verður kynnt atvinnuþátttaka ungs fólks með geðraskanir með hjálp IPS hugmyndafræðinnar.
Nanna Briem hjá geðsviði Landsspítalans og Hlynur Jónasson, atvinnuráðgjafi, kynna hugmyndafræðina. Þá munu fulltrúar nokkurra fyrirtækja mæta og segja frá sinni reynslu af verkefninu. Fundarstjóri er Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu.
Boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 8.00.
IPS (Individual Supported Employment) er hugmyndafræði sem stuðst er við sem stuðningsmódel í snemmíhlutun ungs fólks með geðrofseinkenni og geðklofa. Hún byggist fyrst og fremst á því að finna góð störf og vandaða vinnustaði með hliðsjón af áhugasviði og hæfileikum einstaklingsins og með miklum stuðningi sem felur í sér eftirfylgni og reglulegar heimsóknir á vinnustaðinn sem og fræðslu og samtölum. Hver einstaklingur hefur bæði atvinnuráðgjafa og tengilið frá LSH sér til stuðning fyrsta árið eftir að hann hefur störf og jafnvel lengur, ef þurfa þykir. Þetta er teymisvinna og hún er lykillinn að þeim árangri sem getur náðst.
Hér er hægt að skrá sig á fundinn.