Fréttasafn



15. maí 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Eru innviðagjöldin lögmæt?

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá efasemdum Samtaka iðnaðarins um lögmæti innviðagjalda og að slík gjöld eigi sér líklega ekki lagastoð. Baldur Arnarson, blaðamaður, ræðir við Árna Jóhannsson, sviðsstjóra mannvirkjasviðs hjá SI sem segir: „Við höfum efasemdir um að slík gjaldtaka sé heimiluð í lögum.“ En innviðagjöld bætast við lóðarverð og eiga að mæta kostnaði við uppbyggingu innviða, til dæmis skóla. Árni segir dæmi um að innviðagjöld séu 15-25 þúsund krónur á fermetra og að það samsvari 1,5-2,5 milljónum króna á 100 fermetra íbúð. 

Morgunbladid-15.-mai-2017Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að Mosfellsbær hyggst láta innviðagjöld koma á móti hluta kostnaðar við uppbyggingu borgarlínunnar í Blikastaðalandi en þar er áformuð 6.000 manna byggð. Innviðir borgarlínunnar bætist við íþróttamannvirki og skóla. Árni segir að þessi gjaldtaka muni fara „lóðbeint út í íbúðaverð“. Vegna þessarar þróunar verði hverfandi framboð á nýjum og ódýrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Þess í stað muni slíkar íbúðir verða byggðar á jöðrum höfuðborgarsvæðisins, t.d. á Selfossi og Akranesi. „Ódýru íbúðirnar verða byggðar á jöðrunum. Þær verða ekki byggðar vestan við Elliðaár,“ segir Árni í Morgunblaðinu. Hann segir aðspurður að þessar aðstæður á byggingarmarkaði séu án fordæma á Íslandi. Hugmyndir eru um að innheimta aukagjald vegna borgarlínunnar á þéttingarreitum á Kringlusvæðinu og í Mjódd í Reykjavík. Kópavogur undirbýr slíka gjaldtöku og nú hefur Mosfellsbær fylgt í kjölfarið.

Morgunblaðið, 15. maí 2017.