Fréttasafn



30. nóv. 2023 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Erum komin í algjört öngstræti í orkumálum

Stjórnvöld hafa undanfarin 10-15 ár algjörlega brugðist skyldu sinni að útvega næga raforku á Íslandi. Þetta kemur fram í frétt RÚV þar sem Benedikt Sigurðsson, fréttamaður, ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI. Í fréttinni kemur fram að atvinnuveganefnd hafi lagt fram frumvarp sem ætlað sé að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang að raforku og að stórnotendur hafa mótmælt þessu. „Og þess vegna erum við komin í algjört öngstræti í orkumálum. Þetta frumvarp er birtingarmynd af þeirri stöðu.“ 

Fara í kerfi handstýringar í stað þess að auka framboð á raforku

Sigurður segir að í stað þess að ráðast að rótum vandans að auka framboð á raforku eigi að fara í kerfi handstýringar. „Sem að er fyrir neðan allar hellur að það sé staðan hjá okkur á Íslandi þar sem okkur hefur verið talin trú um í gegnum tíðina að nægt framboð væri af orku.“ 

Ráðast þarf í uppbyggingu án tafa

Sigurður segir í fréttinni að ráðast verði í uppbyggingu án tafa eins og gert hafi verið í nágrannalöndunum. „Stærstu orkuskiptin sem eru í gangi hér á landi eru að aftengja rafmagnið og tengja olíuna og þá er ég að vísa í fiskimjölsverksmiðjurnar.“ Þá segist Sigurður ekki sjá að almenningur muni þurfi ekki að keppa við stórnotendur um rafmagn enda hafi landnet heimildir til að tryggja hag almennings í þeim efnum. 

RÚV, 29. nóvember 2023.

RUV-29-11-2023_1Benedikt Sigurðsson ræðir við Sigurð Hannesson.