Fréttasafn



21. des. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Samtök sprotafyrirtækja

Evrópskir styrkir til nýsköpunar kynntir á rafrænum fundi

Samtök sprotafyrirtækja, SSP, í samstarfi við Enterprise Europe Network, EEN, á Íslandi sem hýst er hjá Rannís stóð fyrir vel heppnuðum rafrænum kynningarfundi síðastliðinn föstudag. Á fundinum var farið yfir möguleika fyrir fyrirtæki á styrkjum frá European Innovation Council, EIC,  ásamt kynningu á þjónustu EEN. Einnig var farið yfir styrki Horizon Europe, umsóknarferlið og styrkjaskrif. Þá var starfsemi SSP kynnt stuttlega og mikilvægi þess að breiður hópur sprotafyrirtækja taki þátt í starfinu.

Á fundinum fór Mjöll Waldorff, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði hjá Rannís, yfir styrkjaflokkana og stóð að kynningu lokinni fyrir svörum ásamt Hannesi Ottóssyni, sem er sérfræðingur á sama sviði. European Innovation Council tilheyrir þriðju stoð Horizon Europe, sjö ára styrkjaverkefni Evrópubandalagsins, þar sem áhersla er lögð á nýsköpun í Evrópu. Styrkir eru veittir til þverfaglegra teyma sem stunda byltingarkenndar rannsóknir, til fyrirtækja og sprota sem eru að þróa sundrandi nýsköpun og fyrirtækja sem eru að vinna að áskorunum tengdum læknatækjum, stafrænni heilsu og grænni vegferð. Styrkirnir eru í þremur ólíkum flokkum; „pathfinder“, „transition“ og „accelerator“ og eru á bilinu 2-4 milljón evra hreinn styrkur upp í allt að 15 milljónum evra í hlutafé í „accelerator“ styrkjaflokknum.

Í kjölfar fundarins var send út könnun á þátttakendur í því skyni að leggja grunn að fleiri og betri upplýsingafundum um málefnið í framtíðinni.