Evrópskt atvinnulíf vill treysta innri markaðinn
BusinessEurope undirstrikaði á formannafundi á Kýpur að sterkari, skilvirkari og dýpri innri markaður sé forsenda þess að Evrópa nái markmiðum sínum varðandi samkeppnishæfni, öryggi, loftslagsbreytingar og þróun gervigreindar.
Leiðtogar aðildarsamtaka BusinessEurope komu saman á Kýpur 10.–11. nóvember þar sem samþykkt var sameiginleg yfirlýsing sem afhent var forseta Kýpur vegna væntanlegrar formennskum landsins í Ráðherraráði Evrópusambandsins. Fundurinn fór fram á tímum aukinnar alþjóðlegrar spennu og versnandi efnahags sem hefur þrengt að rekstri evrópskra fyrirtækja. Í yfirlýsingunni eru lagðar fram sex megináherslur þar sem meðal annars var sérstök áhersla lögð á að dýpka og treysta innri markað ESB.
Fulltrúar íslensks atvinnulífs á formannafundi BusinessEurope voru formenn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, Jón Ólafur Halldórsson og Árni Sigurjónsson, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA og Heiðrún Björk Gísladóttir, alþjóðafulltrúi SA.
Innri markaðurinn lykilatriði í samkeppnishæfni
Í yfirlýsingunni er bent á að enn standi eftir verulegar hindranir innan innri markaðarins sem draga úr vexti og nýsköpun. Þessar hindranir jafngilda allt að 44% tolli í vöruviðskiptum og 110% í þjónustuviðskiptum. Skapar þetta mikinn viðbótarkostnað fyrir fyrirtæki á sama tíma og þau glíma við aukna óvissu og hærri rekstrarkostnað.
BusinessEurope hvetur Kýpur til að gera innri markaðinn að kjarnamálum formennskunnar og móta metnaðarfulla vegvísa til 2028 sem tryggi að hindranir verði fjarlægðar markvisst. Sérstaklega sé mikilvægt að takmarka svokallaða blýhúðun sem skekkir samkeppnisstöðu og torveldar viðskipti á sameiginlegum markaði.
Skilaboðin eru skýr
Auk áherslunnar á innri markaðinn var fjallað um mikilvægi þess að efla samstöðu Evrópu í alþjóðlegum samskiptum, hraða afnámi reglubyrðar fyrir fyrirtæki, móta skýr skilyrði fyrir fjárfestingar í loftslagslausnum og styðja við sköpun vel launaðra starfa.
„Skilaboð atvinnulífsins eru skýr: Styrkari og dýpri innri markaður er forsenda þess að Evrópa nái fram fullum vexti og standi betur gagnvart alþjóðlegri samkeppni,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, formaður SA. „Málflutningur heildarsamtaka evrópsks atvinnulífs er samhljóma málflutningi þess íslenska. Kröfum almennings um aukin lífsgæði og kröfum stjórnvalda í loftslagsmálum verður ekki mætt nema stjórnvöld losi um þá spennitreyju sem atvinnulífið er í vegna stjórnsýslulegra hindrana, blýhúðunar reglugerða og hárra skatta. Atvinnulífið er lausnin, ekki vandamálið.“
„Á tímum sem þessum þarf ESB að styrkja tengsl við nána bandamenn sína sem byggja á sömu gildum og framtíðarsýn,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður SI. „Samtök iðnaðarins meta mikils öflugt samstarf innan BusinessEurope. Þegar Evrópa stendur frammi fyrir áskorunum á alþjóðavettvangi er nauðsynlegt að styrkja samkeppnishæfni álfunnar fremur en veikja. Ég tel það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um grunngildi innri markaðarins og styrkja stoðir EES-samningsins.“
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, Jón Ólafur Halldórsson, formaður SA, og Árni Sigurjónsson, formaður SI.

