Fréttasafn



30. jún. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Eykur ekki verðmætasköpun heldur leiðir til stöðnunar

Í Morgunblaðinu er rætt við talsmenn Samtaka iðnaðarins og Viðskiptaráðs sem eru ósammála afstöðu framkvæmdastjóra Landverndar til orkumála sem kom fram í Morgunblaðinu á þriðjudag. Að mati Sigurðar nægir ekki að forgangsraða þeirri orku sem þegar er framleidd til að mæta aukinni orkuþörf í stað þess að fjölga virkjunum, eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur lagt til. Í Morgunblaðinu bendir hann á að við séum engu bættari með að taka orku af iðnaði og nýta til annarra greina, það auki ekki verðmætasköpun heldur leiði til stöðnunar og verulegrar afturfarar varðandi lífskjör landsmanna. „Við breytum hvorki lögmálum hagfræðinnar né eðlisfræðinnar. Raunveruleikinn er eins og hann er og við þurfum að laga okkur að því. Markmið stjórnvalda eru metnaðarfull og hér er verið að taka ábyrga afstöðu í umhverfismálum í þágu okkar og heimsins alls. Við hljótum að vilja róa að því öllum árum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum.“ Sigurður segir tímann fljótan að líða. „Það þarf að byggja upp innviði og annað. Þessi þróun er á fleygiferð.“ 

Útflutningsgreinar sem nýta eingöngu hreina orku

„Íslenskt samfélag hefur hagnast ríkulega á orkusæknum iðnaði. Innlendur kostnaður álveranna á síðasta ári var 123 milljarðar. Það er það sem varð eftir hér,“ segir Sigurður í Morgunblaðinu. „Nærri tvö þúsund manns eru á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum ásamt verktökum auk afleiddra starfa.“ Hann segir að það liggi í augum uppi að orkunýting starfsemi sem er rekin allan sólarhringinn, allan ársins hring, sé mjög góð. Hann segir að orkusækinn iðnaður sé sífellt að verða fjölbreyttari. Auk stóriðjunnar séu komin gagnaver og þörungaræktun að ryðja sér til rúms. Þá séu áform um mikið fiskeldi á landi og allt krefist þetta orku. „Við yrðum verr sett sem samfélag ef við ætluðum að fórna verðmætasköpun orkusækins iðnaðar til að framleiða rafeldsneyti í þágu orkuskipta,“ segir Sigurður. Þá megi ekki gleyma því að orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður, að einhverju leyti, séu einu útflutningsgreinarnar sem nýta eingöngu hreina orku. 

Ferðaþjónusta og sjávarútvegur nota fyrst og fremst olíu 

Þá segir í Morgunblaðinu að aðrar útflutningsgreinar, eins og ferðaþjónusta og sjávarútvegur, noti fyrst og fremst olíu til að knýja verðmætasköpun sem byggir mikið á flutningum í lofti, á landi og á sjó. Orkuskipti muni þá ganga út á að nota hreina raforku til að framleiða hreina orkugjafa fyrir þessar greinar. Sigurður segir að þróun í þá átt sé komin á fleygiferð og rifjar upp að Samskip hafi nýlega fengið myndarlegan styrk úr norskum sjóði til að gera tilraunir með hreina orkugjafa á skip. „Ég fór á kynningu hjá Airbus í fyrra þar sem kynnt var þróunarverkefni sem miðar að því að flugvélar knúnar rafeldsneyti geti hafið sig til flugs árið 2035,“ segir Sigurður. 

Morgunblaðið, 30. júní 2022.

Morgunbladid-30-06-2022