Fréttasafn6. apr. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Fækkun á íbúðum í byggingu vegna skorts á lóðum

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í ViðskiptaMogganum að minnkandi framboð íbúða á sama tíma og eftirspurn sé vaxandi sé að þrýsta verði upp og það sé nú ekki síst sýnilegt í verðþróun á sérbýli þar sem lítið hefur verið byggt. Í niðurstöðum talningar SI á íbúðum í byggingu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins kemur fram að þeim fækkaði milli ára í mars og voru þá 8% færri en í fyrra. Í fréttinni kemur fram að þá hafi þeim fækkað um fjórðung síðan í mars 2019. Samdrátturinn sé minni utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess og mun meira sé byggt af sérbýli utan höfuðborgarsvæðisins en á því. Í fréttinni segir að þegar mest var hafi 1.166 íbúðir verið í byggingu í mars 2019 en þeim fækkað í tveimur talningum fram í september 2020 þegar 819 íbúðir voru í byggingu. Þeim hafi svo fjölgaði á ný í 869 íbúðir í nýjustu talningunni. Þar af séu 462 íbúðir í smíðum í fjölbýli og séu flestar, eða 189, á Reykjanesi. Næst komi Árborg með 148 íbúðir í fjölbýli. 

Eftirspurn leiðir til frekari verðhækkana

Ingólfur segir aðspurður í ViðskiptaMogganum að samtökin fái það svar frá verktökum að skortur á lóðum sé helsta ástæða þess að íbúðum sem eru í smíðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins fækkar á milli ára. Fækkunin sé því ekki viðbragð við minni eftirspurn. „Við erum að sjá færri íbúðir í byggingu og minna framboð fullbúinna íbúða á sama tíma og mikil eftirspurn er eftir slíkum íbúðum. Eftirspurnin hefur verið sterk m.a. vegna hagstæðra vaxta húsnæðislána, aukins kaupmáttar launa og fólksfjölgunar. Veruleg fækkun hefur orðið á nýjum íbúðum í sölu og meðalsölutími þeirra hefur styst.“ Þá kemur fram í fréttinni að varðandi markaðinn með sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess segir Ingólfur að verð á því hafi hækkað að undanförnu umfram verð á fjölbýli. Með hliðsjón af takmörkuðu framboði af nýju sérbýli á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í Reykjavík, sé viðbúið að eftirspurnin muni leiða til frekari verðhækkana.

Morgunblaðið, 31. mars 2021.

Morgunbladid-31-03-2021