Fréttasafn



3. okt. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Færa þarf eftirlit frá lögreglu til heilbrigðiseftirlits

Starfsemi fjölda fyrirtækja sem ganga inn á verksvið snyrtifræðinga hér á landi hefur verið til umræðu þar sem grunur leikur á mansali og óviðunandi starfsaðstæðum erlends starfsfólks sem hefur lagt allt sitt undir í leit að betra lífi. Ljóst er að kerfið hefur brugðist með tvíþættum hætti. Þetta segir Lilja Björk Guðmunsdóttir, yfirlögfræðingur SI, í grein á Vísi með yfirskriftinni Dýrkeypt eftirlitsleysi. Hún segir að annars vegar hafi kerfið brugðist með afgreiðslu óvenjulega mikils fjölda umsókna um dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, án þess að skilyrði væru raunverulega uppfyllt, og hins vegar með veitingu starfsleyfa til aðila sem eru ekki með tilskilin réttindi. 

Lilja Björk segir í greininni að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi nú lagt fram áform um breytingu á heilbrigðiseftirliti. Í því samhengi sé mikilvægt að gerð verði sú breyting að heilbrigðiseftirlitinu verði falin eftirfylgni við ákvæði laga um tilskyldar fagkröfur við útgáfu leyfisskyldrar starfsemi og að gætt verði að því í hvívetna að fyrirsvarsmaður rekstursins hafi til þess menntun og hæfni í samræmi við lagakröfur. Hún segir að ljóst sé að lögreglan anni ekki eftirliti. Því þurfi að færa eftirlitið frá lögreglu til heilbrigðiseftirlitsins fyrir löggiltar handverksgreinar. „Óbreytt ástand er of dýrkeypt.“

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 3. október 2025.