Fréttasafn



14. feb. 2023 Almennar fréttir Menntun

Færniþörf til umfjöllunar á Menntadegi atvinnulífsins

Færniþörf á vinnumarkaði er umfjöllunarefni á Menntadegi atvinnulífsins sem fer fram í Hörpu í dag þriðjudaginn 14. febrúar nk. kl. 9.00-10.30. Hér er hægt að skrá sig.

Á fundinum verður greind eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar í því augnamiði að skilgreina hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar svo vinnuaflsskortur, hvort sem um er að ræða hæfni og færni eða einfaldlega í fjölda vinnandi handa, verði ekki til þess að vöxtur í atvinnu- og efnahagslífi verði minni en ella hefði orðið.

Aðgerðir í mennta- og fræðslumálum er varða námsframboð, breytingar varðandi dvalar- og atvinnuleyfi erlends starfsfólks og öðru sem aukið gæti sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði gagnast best ef ákvörðunin er byggð á áreiðanlegum gögnum. Marktæk spá um færniþörf er þar lykilatriði.

Meðal þátttakenda í dagskrá eru: 

  • Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, kynnir niðurstöður könnunar og greiningu á færniþörf á vinnumarkaði

  • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 

  • Fjöldi atvinnurekenda og mannauðsstjóra þvert á atvinnugreinar tjáir sig um færniþörf síns geira og framtíð menntamála á Íslandi 

  • Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannsson, afhendir menntaverðlaun atvinnulífsins venju samkvæmt þeim fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið sem fara fyrir óháða valnefnd.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Hér er hægt að nálgast glærur um niðurstöður könnunar um færniþörf sem kynnt var á deginum.

Hér er hægt að nálgast beint streymi:

https://vimeo.com/797776126




Menntadagur_2023_FBL