Fréttasafn8. jan. 2016 Iðnaður og hugverk

Fagmennska í íslenskum bakaríum

Landssamband bakarmeistara – LABAK vill koma á framfæri leiðréttingu á rangfærslum sem birtust í Fréttatímanum 8. janúar í greininni „Sagan á bak við belgíska vínarbrauðið.“  

Þar er því haldið fram að bakstur í íslenskum bakaríum sé að leggjast af og flest það sem í boði sé komi tilbúið frá risafabrikkum í Evrópu og sé einfaldlega skellt í ofninn, bakað og svo selt frammi í búð.

Þetta er rangt. 

Einungis örfáar tegundir af því sem boðið er upp á í bakaríum eru innfluttar, til að mynda kleinuhringir, pecanvínarbrauð og berlínarbollur.

Í flestum bakaríum er nánast allt, um 80-120 vöruliðir, framleitt á staðnum, hnoðað og hrært af fagmönnum.

Það er rétt að mikið magn af bakarísvörum er innflutt en megnið af því er selt í stórmörkuðum, á hótelum og vegasjoppum.

Rangfærslur á borð þessar koma óorði á íslenskan bakaraiðnað þar sem mikið er lagt upp úr fagmennsku, metnaði og gæðum.