Fréttasafn



14. jan. 2026 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Fagna áformum um stofnun innviðafélags

„Við fögnum því að það sé verið að skoða þessa leið til þess að koma nauðsynlegum nýfjárfestingum af stað,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í Morgunblaðinu um áform stjórnvalda um stofnun sérstaks innviðafélags um stórframkvæmdir í vegakerfinu. „Frá okkar bæjardyrum séð er stóra málið að samgönguinnviðir okkar þola ekki frekari bið. Þeir hafa verið fjársveltir allt of lengi og núverandi samgöngukerfi er með gríðarlega uppsafnaða viðhaldsskuld. Það blasir við að leita þarf annarra leiða til að ráðast í nýframkvæmdir, vegna þess að nauðsynlegt er að stjórnvöld fari í dýrar framkvæmdir við núverandi samgöngukerfi.“

Þurfum að sjá hvernig útfærslurnar verða

Jóhanna Klara segir hefðbundið viðhald hafa verið fjársvelt allt of lengi og nefnir að stærsti hluti innviðaskuldar landsins sé í vegakerfinu, á bilinu 265 til 290 milljarðar króna sem vinna þurfi á, ásamt því að ráðast í nýframkvæmdir. „Við bendum jafnframt á að þar er verið að hverfa frá fyrri áformum um samvinnuverkefni. Við treystum því að stjórnvöld séu búin að kynna sér það regluverk sem því fylgir. Við þurfum að sjá hvernig útfærslurnar verða til þess að geta áttað okkur betur á málinu.“

Morgunblaðið, 14. janúar 2026.

Morgunbladid-14-01-2026