Fagnar ákvörðun Seðlabankans um aðlögunartíma CRR III
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, fagnar ákvörðun Seðlabankans um tveggja ára aðlögunartíma á innleiðingu CRR III regluverki Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins. „Við höfum ítrekað bent á í umsögnum okkar að stíf innleiðing CRR III-regluverksins á þessum tímapunkti gæti haft verulega neikvæð áhrif. Það sjást nú þegar skýr merki um kólnun á markaðnum og það væri alls ekki á það bætandi að auka kostnað greinarinnar um 4-5 milljarða króna þar ofan á,“ segir Jóhanna í fréttinni. Hún nefnir einnig að þetta skapi nauðsynlegt svigrúm: „með því að veita tveggja ára aðlögunartíma og lækka eiginfjárviðmiðið tímabundið í 20% er komið í veg fyrir snögga hækkun fjármagnskostnaðar sem hefði bitnað harkalega á byggingariðnaðinum. Þetta gefur greininni nauðsynlegt andrými til að aðlagast breyttu umhverfi og styður við áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem er samfélaginu bráðnauðsynleg. Við vonumst auðvitað til þess að Seðlabankinn beiti áfram sömu skynsemi þegar kemur að endurskoðun eftir tvö ár.“
Morgunblaðið / mbl.is, 11. desember 2025.


