Fagnar lækkun vaxta en hefði viljað sjá meiri lækkun
Í Viðskiptablaðinu í dag er rætt við forsvarsmenn atvinnulífsins, fjármálaráðherra og aðilar á fjármálamarkaði um vaxtalækkun peningastefnunefndar Seðlabankans. Í máli þeirra kemur fram að ákvörðunin sé tímabær og binda þeir vonir við það að hún marki upphaf vaxtalækkunarferlis.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í Viðskiptablaðinu að vaxtamunur við útlönd verði að minnka áfram. „Við fögnum því mjög að Seðlabankinn lækki vexti en við hefðum gjarnan viljað sjá 50 punkta lækkun í stað 25 punkta lækkunar,“ segir Almar. „Háir vextir hafa í raun frekar ýtt undir einkaneyslu heldur en sparnað og hefur Seðlabankinn ekki gefið þeirri staðreynd nægilegt vægi. Vegna hraðrar styrkingar krónunnar höfum við verulegar áhyggjur af flótta fyrirtækja, að hluta eða að öllu leyti, úr landi. Vaxtamunur er mikilvægt tæki til að vinna gegn slíku. Það er dýrt fyrir samfélagið ef héðan hverfa tækifæri til að byggja upp útflutningsdrifinn iðnað sem byggir á þekkingu á okkar undirstöðuauðlindum og almennu íslensku hugviti og áræðni.“
Viðskiptablaðið, 18. maí 2017.