Fréttasafn



26. sep. 2017 Almennar fréttir Menntun

Fagnar öllum tillögum um framþróun í fjölgun iðnnema

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra SI, að líkt og fram hafi komið í greinaskrifum fulltrúa meistarafélaga sem starfa innan Samtaka iðnaðarins þá séu áherslur samtakanna í samræmi við vilja þeirra félaga þó andstæð sjónarmið hafi vissulega heyrst. „Við fögnum öllum tillögum sem fram koma varðandi mögulegar úrbætur og framþróun í þá átt að fjölga iðnnemum.“ 

Tilefni fréttarinnar er gagnrýni tveggja iðnmeistara á stefnu hins opinbera og hagsmunasamtaka atvinnulífsins í málefnum iðnmenntunar. Sigurður segir jafnframt að þvert á það sem fram hafi komið í frétt Morgunblaðsins hafi Samtök iðnaðarins staðið vörð um fagmennsku og gætt hagsmuna iðnmeistara með því að gera yfirvöldum grein fyrir þeim sem bjóða fram þjónustu án tilskilinna réttinda. Hann segir að SI séu stór og breið samtök sem vinna að hagsmunum félagsmanna m.a. í menntamálum.  „Iðnmeistarar bera virðingu fyrir sínu fagi. Það er fullkomlega eðlilegt og virðingarvert enda liggur mikill undirbúningur að baki slíkri menntun.“

Fjölga þarf iðnnemum í takt við eftirspurn atvinnulífsins

Sigurður segir Samtök iðnaðarins hafi lengi lagt áherslu á fjölgun iðnnema enda mikil eftirspurn eftir slíkri menntun og góð, vel launuð störf í boði. „Í mörgum greinum hefur nýliðun dregist saman síðustu árin. Nauðsynlegt er að leita skýringa á því og leiða til að bregðast við því þannig að nemendum fjölgi í takt við eftirspurn atvinnulífsins.“ 

Hann segir að ein ástæða þess að dregið hefur úr nýliðun iðnaðarmanna sé óvissa í tengslum við námsferil og óskýrt kerfi. Á námstíma geti aðstæður breyst þannig að meistari geti ekki tekið við nema, þrátt fyrir að loforð hafi áður verið gefin um slíkt. Sigurður segir að þetta skapi óvissu hjá nemum um það hvort þeir geti útskrifast sem iðnsveinar eða ekki og dragi því úr aðsókn í námið. Í fréttinni kemur fram að samtökin hafi tekið höndum saman með iðnmeisturum og rætt leiðir til að draga úr þessari óvissu.

Morgunblaðið/mbl.is , 25. september 2017.