Fréttasafn7. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Umhverfis og orkumál

Fagnar umræðu um orkumálin

„Ég fagna þessari umræðu og mér finnst hún vera jákvæð að mörgu leyti. Hins vegar vil ég benda á að um þessar mundir er verið að móta orkustefnu á vegum stjórnvalda, sú vinna hófst á síðasta ári og lýkur öðru hvoru megin við næstu áramót. Þar er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, til viðbótar við aðra sem koma að þessari vinnu, og ég veit að sú vinna hefur verið mjög virk síðustu mánuðina. Mér finnst það vera hinn eðlilegi vettvangur til þess að leiða öll þessi álitamál sem upp hafa komið til lykta. Álitamál um sæstreng, um eignarhaldið, um skiptingu markaðar og svo framvegis,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem rætt var um þriðja og fjórða orkupakkann. 

Hann segir að það færi vel á því að hópurinn sem vinni að mótun orkustefnu hugsi til þeirra sjónarmiða sem hafa komið upp í umræðunni núna, það væri góður vettvangur til þess að horfa fram á veginn. „Þriðji orkupakkinn er ekki stefnubreyting. Þriðji orkupakkinn er í rauninni bara framhald á vegferð sem hófst hér fyrir rúmum 15 árum síðan með innleiðingu fyrsta orkupakkans og síðan annars.“ 

Þegar Sigurður er spurður hvort hann kunni skýringu á því af hverju það séu svona mikil læti í kringum þetta mál, miklar tilfinningar og hiti? „Þetta varðar auðvitað auðlindir landsins og nýtingu á þeim og það skiptir landsmenn máli hvernig þeim málum er háttað. Ég held að það sé rótin að þessari umræðu allri saman.“ 

Engin nýmæli í þriðja orkupakkanum en nýmæli í þeim fjórða

Sigurður segir í viðtalinu að Samtök iðnaðarins mæli með því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi með fyrirvara um sjálfstæði Orkustofnunar. Hann segir að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér nein nýmæli fyrir okkur hér á landi en hins vegar sé annað mál með fjórða orkupakkann eða Vetrarpakkann þar sem farið er inn á orkunýtnimál. „Þá erum við að horfa á mál eins og orkunýtingu bygginga og staðan er auðvitað sú að við notum orku til þess að kynda hús en úti er notuð orka til að kæla byggingar. Við þurfum ekki á því að halda hér á landi. Það er nóg að opna gluggann ef það er of heitt inni í flestum tilvikum. Aðstæður okkar eru býsna ólíkar því sem gerist. Við njótum talsverðrar sérstöðu. Þessar kröfur um orkunýtingu bygginga eiga ekki við hér á landi. Við notum heitt vatn til að kynda húsin, það er endurnýjanleg orka. Í Evrópu eru aðrir orkugjafar nýttir til þess að kynda hús, kolaorka, olía eða hvaða það nú er. Þarna þarf að gæta að sérstöðu Íslands. Sem dæmi að byggingarkostnaður hækki ekki verulega samhliða kröfum um um meiri orkunýtingu bygginga. Þannig að þarna þarf svo sannarlega að halda á lofti sérstöðu Íslands vegna þess að ólíkt þriðja orkupakkanum þá felur Vetrarpakkinn í sér talsverð nýmæli sem þriðji orkupakkinn gerir ekki. Þriðji orkupakkinn er fyrst og fremst að skerpa á þeim reglum sem eru þegar til staðar.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.