Fáir segja Ísland vera góðan stað fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki
Einungis 19% telja Ísland vera góðan stað fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki og álíka fjöldi eða 18% telja Ísland góðan stað fyrir fyrirtæki í örum vexti. Hins vegar eru ívið fleiri eða 39% sem telja Ísland góðan stað fyrir fyrirtæki sem eru að hefja rekstur. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri könnun sem gerð var meðal fyrirtækja sem sóttu um styrk í Tækniþróunarsjóð á tímabilinu 2017-2019. Könnunin er samstarfsverkefni Northstack, Gallup og Tækniþróunarsjóðs og var verkefnið styrkt af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Niðurstöðurnar sýna jafnframt að 78% telja það einfalt að stofna fyrirtæki á Íslandi. 39% segja að aðgengi sé gott að innlendum mannauði með tilskylda reynslu, þekkingu og færni á sama tíma og 61% segja aðgengi gott að erlendum mannauði. Erlendir sérfræðingar starfa hjá 41% þeirra sem svöruðu en um helmingur svarenda veit af því að erlendir sérfræðingar sem flytja til Íslands eiga möguleika á skattaafslætti.
Hér er hægt að nálgast niðurstöður könnunarinnar.