Fast 50 og Rising Star fyrir íslensk tæknifyrirtæki
Íslensk tæknifyrirtæki geta nú í þriðja sinn tekið þátt í alþjóðlegu verkefnunum Fast 50 og Rising Star. Verkefnin miða að því að skapa vettvang til að vekja athygli fjárfesta og annarra hagsmunaaðila vítt og breitt um heiminn á vexti og vaxtarmöguleikum tæknifyrirtækja. Skráningarfrestur í Fast 50 er til 9. október og í Rising Star til 19. október. Verkefnin eru á vegum Deloitte í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Félag kvenna í atvinnulífinu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Fast 50 er ætlað fyrir ört vaxandi tæknifyrirtæki sem hafa verið starfandi í 4 ár, stofnuð 2013 og fyrr. Þátttökuskilyrðin eru fjögur: Fyrirtækið verður að vera íslenskt, hafa verið stofnað árið 2013 eða fyrr, vera í tæknitengdri starfsemi og hafa haft veltu árið 2013 yfir 6 milljónir króna og yfir 95 milljónir króna árið 2016. Fast 50 listinn verður birtur á Fast 50 og Rising Star viðburðinum sem haldin verður í nóvember. Listinn hefur að geyma nöfn þátttakenda og hlutfallslegan vöxt milli áranna 2013 og 2016.
Rising Star er ætlað fyrir frumkvöðla og sprota í tæknitengdum greinum sem hafa verið í starfsemi skemur en 4 ár, stofnuð 2013 eða síðar. Þátttökuskilyrðin eru fjögur: Fyrirtækið verður að vera íslenskt, hafa verið stofnað á árunum 2013-2016, vera í tæknitengdri starfsemi og hafa haft veltu yfir 1,2 milljón króna í fyrra og eru styrkir þar með taldir. Sérstök dómnefnd skipuð af fjölbreyttum hópi sérfræðinga fer yfir allar umsóknir og velur 4-6 fyrirtæki sem boðið er að kynna sig á Fast 50 og Rising Star viðburðinum, sem haldin verður í nóvember. Á þeim viðburði velur dómnefndin tvo sigurvegara. Í fyrra valdi dómnefnd Rising Star fyrirtækin Florealis og Crankwheel sem Rising Stars 2016. Árið 2015 voru valin fyrirtækin Authenteq og Kúla 3D.
Fjölbreyttur ávinningur
Fyrirtæki sem skrá sig í Fast 50 eða Rising Star eiga möguleika á að:
- vera boðið á Slush í Helsinki í lok nóvember
- funda með innlendum fjárfestum um næstu skref
- kynna fyrirtækið fyrir erlendum fjárfestum
- fá aukna umfjöllun um fyrirtækið
- efla til muna sýnileika vörumerkja fyrirtækisins
- vekja athygli innlendra og erlendra fjárfesta
- skapa verðmæt tengsl þvert á landamæri
- tengjast nýsköpunarteymum Deloitte víða um heim