Fréttasafn28. jan. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Fasteignaskattar á fyrirtæki 26 milljarðar í ár

Álagðir skattar sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði námu tæplega 23 milljörðum króna í fyrra og í nýrri greiningu SI kemur fram að þeir gætu numið ríflega 26 milljörðum króna í ár. Fasteignaskattar á fyrirtæki hafa hækkað um 94% eða 12,6 milljarða króna frá upphafi efnahagsuppsveiflunnar 2011. Það er 60% hækkun skatta umfram verðbólgu í landinu á tímabilinu. 

Áætluð hækkun á milli áranna 2018 og 2019 nemur 13,5% sem er 10% umfram áætlaða verðbólgu á tímabilinu. Þessi mikla hækkun á sér stað á sama tíma og hægist verulega á gangi efnahagslífsins og hagur fyrirtækja versnar. Í þessum hækkunum fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði felast því umtalsverðar auknar skattaálögur á fyrirtæki – álögur sem eru langt umfram aukna verðmætasköpun efnahagslífsins.

Mynd-fasteignaskattar

 

51% allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er í Reykjavík

Af sveitarfélögunum er Reykjavík með hæst eða ríflega 18 milljarða króna í álagða fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði eða 51% allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Á eftir koma Kópavogsbær með 3,7 ma.kr. eða  8%, Hafnarfjörður með 3,2 ma.kr. eða  7%, Akureyri með 2,0 ma.kr. eða 4%, Reykjanesbær
með 1,6 ma.kr. eða 3% og Garðabær með 1,5 ma.kr. eða  3%. Reykjavík, Garðabær, Reykjanesbær og Akureyri innheimtu hæstu mögulegu prósentuna af fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði á síðasta ári sem er 1,65%. Í Kópavogi eru skattprósentan 1,6% og í Hafnarfirði 1,57%. 

Hér er hægt að lesa greiningu SI um fasteignaskatta á fyrirtæki.