Fréttasafn5. jún. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Fasteignaskattar aldrei hærri á tímum sögulegs samdráttar

Ljóst er að álagning sveitarfélaga á fasteignasköttum atvinnuhúsnæðis er ekki að hjálpa til við að skapa þá viðspyrnu sem skila á þeim hagvexti og fjölgun starfa sem nú er þörf á. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI, Fasteignaskattar hækkaðir á tímum sögulegs samdráttar, en samkvæmt uppfærðri áætlun samtakanna munu íslensk fyrirtæki greiða rúmlega 1% af landsframleiðslu í fasteignaskatta til sveitarfélaga á þessu ári og rétt tæplega 1% á næsta ári. Þessi skattheimta hefur aldrei mælst hærri og er hún einnig há í erlendum samanburði en hlutfallið er að meðaltali rétt tæplega 0,4% í iðnvæddum ríkjum. Skattbyrði fyrirtækja hækkar frá 2019 þegar hún mældist 0,9% en þess má geta að hlutfallið var ríflega 0,7% fyrir 5 árum. Þessi aukna skattbyrði kemur sér sérstaklega illa nú þegar fyrirtæki landsins eru að takast á við dýpstu niðursveiflu í 100 ár.

Fasteignaskattar-a-fyrirtaeki

Aukin skattbyrði vinnur gegn hagstjórnaraðgerðum

Í greiningunni segir að þessi aukna skattbyrði vinni gegn hagstjórnaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans sem hafi undanfarið miðað að því að draga úr dýpt niðursveiflunnar og skapa viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Í greiningunni kemur einnig fram að samkvæmt nýbirtu fasteignamati Þjóðskrár fyrir 2021 muni skattbyrðin sem sveitarfélögin leggja á fyrirtækin í landinu vera áfram sögulega há á næsta ári. Fyrirtækin munu þá greiða sveitarfélögunum 28,3 ma.kr. í fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði samanborið við 28,2 ma.kr. í ár skv. áætlun SI. Líkt og á þessu ári vegur hækkun á fasteignamati upp á móti lækkun á útsvarsprósentu. Skattarnir hafa hækkað um nær 50% að raunvirði frá árinu 2015 og 20% frá 2018 þegar niðursveiflan í efnahagslífinu hófst.

Sveitarfélög létti álögur af atvinnulífinu

Jafnframt kemur fram í greiningunni að mikilvægt sé að sveitarfélög axli ábyrgð í hagstjórn og létti álögur af atvinnulífinu með því að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Þá segir að jafnframt skipti miklu máli að að lögin um útreikning álagningarstofns séu endurskoðuð þannig að tekið sé tillit til væntinga um hagþróun í meiri mæli en verið hefur. Í því sambandi er nefnt að álagningarstofn atvinnuhúsnæðis hækkar um 1,7% á milli áranna 2020 og 2021 en fasteignamat ársins 2021 miðast við breytingar í fasteignaverði frá febrúar 2019 til febrúar 2020, þ.e. áður en áhrifa COVID-19 fór að gæta í íslensku efnahagslífi. Þjóðskrá hefur boðað að áhrifa COVID-19 muni fyrst gæta við gerð fasteignamats fyrir árið 2022 með tilheyrandi lækkun álagningarstofns og fasteignaskatta á fyrirtæki. Það er mat Samtaka iðnaðarins að það sé allt of seint fyrir fyrirtæki landsins sem mörg hver eru nú að takast á við sögulega mjög erfiða tíma.

Fasteignaskattar-a-atvinnuhusnaedi

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.