Fréttasafn



28. jan. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Fasteignaskattar leggjast þyngst á fyrirtækin í landinu

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir að fasteignaskattar séu afar háir hér á landi í samanburði við það sem þekkist í nágrannalöndunum og að Ísland sé með nær tvöfalt hærri fasteignaskatta en hin Norðurlandaríkin að meðaltali, sem hlutfall af landsframleiðslu. Fasteignaskattarnir leggist þyngst á fyrirtækin í landinu, enda meira en helmingur skattanna á atvinnuhúsnæði þó að atvinnuhúsnæði sé aðeins fimmtungur af verðmæti húsnæðis í landinu. Stafar þetta af mun hærra álagningarhlutfalli á atvinnuhúsnæði en á íbúðarhúsnæði. Vísað er í samtal við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðið um helgina þar sem hann greindi frá því að álagðir fasteignaskattar á fyrirtæki hefðu tvöfaldast frá árinu 2011 til þessa árs. Hækkunin umfram verðbólgu sé 60% á þessu tímabili og frá árinu í fyrra sé hækkunin 13,5%. Vitnað er til orða Sigurðar: „Þetta er gríðarleg aukning á stuttum tíma. Skattar á fyrirtæki eru háir hér í samanburði við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Þessir fasteignaskattar eru birtingarmynd þess og ekki hægt að bjóða fyrirtækjum upp á þetta til viðbótar við sveiflur, óstöðugleika og miklar innlendar kostnaðarhækkanir. Þá eru laun há hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Nú þegar hægir verulega á hagvextinum dregur úr tekjum margra fyrirtækja en á sama tíma eru sveitarfélögin að taka sífellt meira til sín eins og við sjáum í væntri álagningu fyrir 2019. Þá má heldur ekki gleyma því að sveitarfélögin eru að fá þetta til viðbótar við útsvarið frá starfsmönnum fyrirtækja.“

Þá segir í leiðaranum að athygli veki að fremst í flokki í þessari miklu skattheimtu sé Reykjavíkurborg og að borgin innheimti meirihluta allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og hækkunin á milli ára sé vel yfir landsmeðaltalinu eða 17%. 

Morgunblaðið, 28. janúar 2018.