Félag blikksmiðjueigenda fagnaði 80 ára afmæli
Félag blikksmiðjueigenda, FBE, sem er eitt af aðildarfélögum SI, fagnaði 80 ára afmæli félagsins á Grand Hótel Reykjavík. Stofnfundur félagsins var 6. júlí 1937 og voru allir núlifandi fyrrverandi formenn félagsins á staðnum en það eru þeir Garðar Erlendsson, Gylfi Konráðsson, Þröstur Hafsteinsson og Kolviður Helgason. Núverandi formaður félagsins er Sævar Jónsson og bauð hann gesti velkomna. Veislustjóri kvöldsins var Jóhann Alfreð Kristinsson úr uppistandshópnum Mið-Ísland. Þá ávarpaði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, gesti. Ingólfur Sverrisson, fyrrverandi starfsmaður SI og FBE, var heiðursgestur og aðalræðumaður kvöldsins. Magnús Þór Sigmundsson, tónlistarmaður, flutti tónlist.
Í afmælishófinu heiðraði stjórn félagsins fjóra félaga sem unnið hafa mikið starf fyrir félagið. Heiðursmerki félagsins voru afhent þeim Eyjólfi Ingimundarsyni, Valdimar Jónssyni, Einari Finnbogasyni og Þorsteini Ögmundssyni.
Á sínum tíma var Félag blikksmiðjueigenda fyrst og fremst stofnað í þeim tilgangi að gera kjarasamninga við sveina í blikksmíði sem höfðu tveimur árum fyrr stofnað sitt stéttarfélag. Einnig var mikill skortur á hráefnum á þeim tíma í ljósi hafta og stóð félagið m.a. fyrir magninnkaupum fyrir hönd sinna félagsmanna. Það voru fulltrúar fimm blikksmiðja sem komu saman og stofnuðu félagið. Á undanförnum árum hefur orðið mikil þróun í greininni og er blikksmiði orðin nútíma tæknigrein sem byggir þó á gömlum grunni.
Hægt er að skoða fleiri myndir á Facebook.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti ávarp.
Sævar Jónsson, formaður Félags blikksmiðjueigenda, bauð gesti velkomna.