Félag vinnuvélaeigenda fundar með systursamtökum sínum
Félag vinnuvélaeigenda fundaði með systursamtökum sínum á Norðurlöndunum í Kiruna í Svíþjóð dagana 31. ágúst til 1. september síðastliðinn. Á fundinum var rætt um stöðu greinarinnar og skort á starfsfólki með rétta hæfni. Í Noregi og Svíþjóð eru reknir öflugir skólar sem sérhæfa sig í námi í jarðvinnu og er námið vel sótt, sérstaklega í Noregi. Félag vinnuvélaeigenda og Samtök iðnaðarins hafa uppi áform um að koma á námi í greininni hér á landi og kom fram ánægja á fundinum með þau áform. Einnig var rætt um ímynd greinarinnar og útboðsmál en samtök allra Norðurlandanna eru að kljást við svipuð vandamál í þeim efnum.
Fulltrúarnir sem sóttu fundinn í Svíþjóð kynnti sér áhugaverða stöðu í Kiruna þar sem verið er að færa bæinn vegna námuvinnslu LKAB á svæðinu og fengu fulltrúarnir tækifæri til að skoða námuna.
Fulltrúar Íslands á fundinum voru Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks og formaður Félags vinnuvélaeigenda. Á myndinni fyrir ofan er Jóhanna Klara fimmta frá hægri og Óskar er þriðji frá hægri.