Fimm flokkar af átta áforma að lækka tryggingagjald
Fimm flokkar af átta sem hlutu kosningu til Alþingis áforma að létta álögum af fyrirtækjum eins og kostur er á nýju kjörtímabili, m.a. með lækkun tryggingagjalds. Þetta kemur fram í könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu meðal þeirra flokka sem tóku þátt í kosningafundi SI. Framsóknarflokkur, Miðflokkur, Samfylking Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn, áforma að draga úr álögum á fyrirtæki, m.a. með lækkun tryggingagjalds. Vinstri græn, einn flokka, sagðist ekki áforma slíkt á kjörtímabilinu. Píratar og Flokkur fólksins svöruðu ekki.
Að mati Samtaka iðnaðarins er ein stærsta áskorun nýs kjörtímabils að finna leiðir til að tryggja samkeppnishæft starfsumhverfi sem laðar til landsins fólk og fyrirtæki. Bæta má samkeppnishæfnina með því að lækka álögur á fyrirtæki, t.d. með lækkun tryggingagjalds. Gott og heilbrigt starfsumhverfi er grunnforsenda þess að fyrirtæki dafni og styðji við efnahagslega velsæld íbúa. Með því að létta álögum af fyrirtækjum má skapa störf og auka verðmæti.
Stór kostnaðarliður fyrir íslenskan vinnumarkað
Tryggingagjald er lagt á launakostnað fyrirtækja og samanstendur af almennu tryggingagjaldi og atvinnuleysistryggingagjaldi. Í heild er gjaldið 6,1% af öllum launagreiðslum í landinu. Gjaldið var hækkað verulega í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 en hefur verið lækkað nokkuð síðustu ár. Það er enn tæplega prósentustigi hærra frá árinu 2000. Gjaldið er einn stærsti einstaki tekjuliður ríkissjóðs og í leiðinni stór kostnaðarliður fyrir íslenskan vinnumarkað. Líkt og segir í nýjustu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar felur tryggingagjaldið í sér samfélagslegan kostnað. Það eykur kostnað fyrirtækja við hvern starfsmann á launaskrá og dregur með því úr svigrúmi til launahækkana, ráðninga, fjárfestinga og annarra umsvifa.
436 milljarða króna gjaldtaka á nýju kjörtímabili
Reiknað er með því að tryggingagjald skili ríkissjóði ríflega 92 mö.kr. í ár og tæplega 106 mö.kr. á næsta ári. Á næstu fjórum árum, þ.e. á nýju kjörtímabili, er reiknað með því að tekjur af tryggingagjaldi fari hækkandi samhliða fjölgun starfandi og hækkandi launum. Reiknað er með að gjaldið skili ríkissjóði 125,1 ma.kr. í tekjur á árinu 2025, þ.e. í lok kjörtímabilsins. Samanlagt mun gjaldið því skila 436 mö.kr. í tekjur yfir næstu fjögur ár, þ.e. á nýju kjörtímabili metið á verðlagi ársins í ár.
Mjög mikilvægt að lækka tryggingagjaldið
Hátt tryggingagjald kemur verst niður á þau fyrirtæki þar sem launahlutfallið er hátt, þ.e. þar sem kostnaður einskorðast fyrst og fremst við laun og launatengd gjöld. Á þetta við um mörg iðnfyrirtæki líkt og verkfræðistofur, arkitektastofur og ýmis fyrirtæki í hugverkaiðnaði.
Hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum. Gjaldið dregur úr getu fyrirtækja að ráða til sín starfsmenn. Það er mat Samtaka iðnaðarins að það sé mjög slæmt, ekki síst nú þegar verkefni hagstjórnar er að koma hagkerfinu upp úr djúpri efnahagslægð. Því er mjög mikilvægt nú þegar efla þarf verðmætasköpun og fjölga störfum í einkageiranum að tryggingagjaldið sé lækkað.
Frettabladid.is, 29. september 2021.