Fimm milljörðum meira í tryggingagjald
Tryggingagjald sem atvinnurekendur greiddu í ríkissjóð nam alls 42,3 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2016 og var 5,4% umfram áætlun. Þetta kemur fram í tölum um greiðsluafkomu ríkissjóðs.
Tekjur ríkisins af greiddu tryggingagjaldi aukast um 5,2 milljarða króna, eða 14 prósent, á milli ára.
Samtök iðnaðarins hafa þrýst á um lækkun gjaldsins. Gjaldið var 8,65 prósent fyrir árið 2011 en hafði lækkað og var 7,35 prósent fyrir fyrri hluta þessa árs. Um síðustu mánaðamót lækkaði það um 0,5 prósentustig og stendur nú í 6,85 prósentum.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir mikilvægt að gjaldið haldi áfram að lækka. „Þetta var 5,34 prósent fyrir hrun og okkur finnst mjög eðlilegt að gjaldið fari þangað aftur. Þá eru í raun 1,5 prósent eftir,“ segir Almar.
Almar segir að í ljósi mikilla launahækkana komi það ekki á óvart að ríkissjóður fái meiri tekjur af gjaldinu nú en síðustu ár. „Þess þá heldur er mikilvægt að þetta launatengda gjald lækki til þess að atvinnulífið geti þá nýtt tækifæri til þess að ráða fleiri í vinnu,“ segir Almar og bætir við að lækkun gjaldsins sé líka mikilvægt til þess að takast á við þær launahækkanir sem þegar hafi orðið. Innlend framleiðslufyrirtæki geti ekki velt öllum launahækkunum út í verðlag. Þar af leiðandi kalla þær á rekstrarhagræði hjá fyrirtækjum og þá geti tryggingargjaldið virkað sem dempari. Lægra tryggingagjald hjálpi til við að halda rekstri í eðlilegu horfi.
Almar segir jafnframt að í tilfelli útflutningsfyrirtækja sé lækkun gjaldsins samkeppnismál.
Fréttablaðið, 4. ágúst 2016, blaðamaður: Jón Hákon Halldórsson