Fréttasafn11. okt. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Fimm tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2021 sem að þessu sinni eru fimm. Verðlaunin verða afhent í Grósku 29. október. Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning. Verðlaunin eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Á afhendingunni verða veitt Hönnunarverðlaun Íslands, Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun.

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins.

Magnea

Fatalína fatahönnuðarins Magneu Einarsdóttur, MAGNEA - made in reykjavík hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Í umsögn dómnefndar segir: MAGNEA - made in reykjavík er fatalína eftir Magneu Einarsdóttur fatahönnuð. Um er að ræða vandaðar yfirhafnir hannaðar með tímalausum sniðum og framleiddar úr 100% íslenskri ull. Magnea hefur undanfarin ár vakið verðskuldaða athygli fyrir frumlega nálgun sína við prjón og efnismeðferð á íslenskri ull sem hún hefur þróað. Fágað litaval og listræn framsetning undirstrika nýstárlega möguleika íslensku ullarinnar sem spennandi efnis í fatnað fyrir nútímafólk. Í framleiðsluferli made in reykjavík er lögð áhersla á atriði sem stuðla að aukinni sjálfbærni í tískuiðnaði – eins og rekjanleika, gagnsæi og staðbundna framleiðslu. Útkoman er einstaklega vel heppnuð, fáguð, nútímaleg og jafnframt tímalaus hönnun úr íslensku hráefni.

 

Hjaltalin

Ásýnd „Hjaltalín - ∞“ eftir grafíska hönnuðinn Sigurð Oddsson, myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðinn Gabríel Benedikt Bachmann hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Í umsögn dómnefndar segir: Fyrir ásýnd „Hjaltalín - ∞“, fjórðu breiðskífu hljómsveitarinnar Hjaltalín, veltir Sigurður Oddsson, grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi verksins, upp hugmyndum um varanleika og hlutgervingu tónlistar í samtali og samvinnu við myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðinn Gabríel Benedikt Bachmann. Hér er hljóðheimur sköpunar hlutgerður sem úlfabarn í formi höggmyndar úr basalti sem er jafnframt teiknuð og vistuð í þrívíðu stafrænu formi – til þess að hámarka líftíma og auðvelda birtingarmyndir á ólíkum miðlum. Myndræn framsetning plötunnar gengur afar vel upp; samspil ljóss og skugga skapar einstaka kyrrð og hlýju, leturval er við hæfi og táknróf plötunnar vísar smekklega í gyllta plötu Voyager geimfarsins. Hönnun „Hjaltalín - ∞“ er heildrænt verk og metnaðarfullur minnisvarði til framtíðar. 

Yrki

Söluhús við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Í umsögn dómnefndar segir: Söluhúsin við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta eru lágstemmd og vel heppnuð röð húsa í góðu samtali við umhverfi sitt. Efnisnotkun og skali bygginganna er sá sami en ólíkar útfærslur á timburgrindum og -veggjum við hvert hús brjóta lengjuna upp og mynda ýmist skjól, bekki eða geymslurými. Viðbyggingar og borgarhúsgögn eru því inni í kerfi bygginganna og mynda rými fyrir fjölbreytta virkni og mannlíf á milli húsanna og í kringum þau. Að innan er burðarvirki húsanna sýnilegt, sem skapar hráa en um leið fíngerða stemningu. Byggingarnar eru glerjaðar á tveimur hliðum sem tryggir góða dagsbirtu og skemmtilegt útsýni út á höfnina. Um er að ræða fallega og vandaða umgjörð sem heldur vel utan um fjölbreytilega starfsemi og daglegt mannlíf.

Konur-sem-kjosa3

Konur sem kjósa eftir Snæfríði Þorsteins, Hildigunni Gunnarsdóttur og Agnar Frey Stefánsson hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Í umsögn dómnefndar segir: Konur sem kjósa er metnaðarfullur prentgripur þar sem kosningabaráttu kvenna á Íslandi undanfarin hundrað ár eru gerð ítarleg skil í máli og myndum. Hönnun og umbrot er eftir grafísku hönnuðina Snæfríði Þorsteins, Hildigunnar Gunnarsdóttur og Agnars Freys Stefánssonar. Nálgun við viðfangsefnið einkennist af virðingu og verkinu er sköpuð viðeigandi og eftirtektarverð umgjörð. Rauði liturinn setur tóninn og framúrskarandi leturmeðferð og gott næmi fyrir myndrænum frásagnarstíl kjarna og myndgera pólitískan baráttuanda íslenskra kvenna, og þungavigt hans í sögulegu samhengi, í vel gerðum og aðgengilegum en jafnframt sérstæðum prentgrip.

Thykjo2

Hönnunarverkefnið Þykjó eftir hönnuðina Sigríði Sunnu Reynisdóttur, Ninnu Þórarinsdóttur, Sigurbjörgu Stefánsdóttir og Erlu Ólafsdóttur hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Í umsögn dómnefndar segir: Þykjó er hönnunarverkefni, unnið af þverfaglegu teymi hönnuða sem samnýta ólíka sérþekkingu sína í textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnun. Hugmyndafræði þeirra gengur út á að búa til umhverfi, leikrými og upplifun sem örvar ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik. Í allri nálgun Þykjó er lagt upp með að nýta afgangsefni, innlenda fagþekkingu og tækjabúnað. Þar fer saman vel heppnuð samþætting rýmis, hönnunar og skynjunar og þverfaglegt samstarf milli skapandi fólks og sérfræðinga – hvort sem um er að ræða í handverki eða vísindum. Marglaga nálgun er unnin í samtali við börn og er ætlað að skapa umhverfi sem leikur með skynjun í víðum skilningi og er mótað á þeim skala sem börn geta skilið og tileinkað sér. 

Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2021

Í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2021 sitja eftirtaldir: 

 

  • Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og formaður dómnefndar
  • Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt og deildarforseti í arkitektúr við Listaháskóla Íslands
  • Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður og framkvæmdarstjóri Edelkoort Inc.
  • Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður
  • Margrét Kristín Sigurðardóttir, almannatengsla- og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins
  • Katarina Siltavuori, framkvæmdastjóri Archinfo í Finnlandi