Fréttasafn23. feb. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Finna lausnir í íbúðauppbyggingu með iðnfyrirtækjum

„Það er nauðsynleg að gerðar verði raunhæfar áætlanir um íbúðauppbyggingu og finna þarf lausnir með fyrirtækjunum til að liðka fyrir uppbyggingaráformum,” segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í sérblaði Viðskiptablaðsins um sýninguna Verk og vit sem fer fram í Laugardalshöll í apríl. 

Í viðtalinu segir Jóhanna Klara meðal annars að það megi skipta sérsviðum mannvirkjaiðnaðarins upp eftir þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. „Þar er fjárfesting í efnislegum þáttum skipt í þrennt, þ.e. íbúðarhúsnæði, mannvirki atvinnuveganna og opinbera innviði. Þannig er byggingariðnaðinum einnig skipt upp, þ.e. íbúðauppbygging, atvinnuvegauppbygging og innviðauppbygging. Við þetta má síðan bæta viðhaldsverkefnum sem eru í raun fjórða stoðin og er viðhald opinberra innviða þar umfangsmikið.“ Hún segir að með hliðsjón af sérhæfingu fyrirtækja í mannvirkjaiðnaði liggi fyrir að þau hoppi ekki á milli sérsviða í greininni og þörfinni fyrir íbúðauppbyggingu verði ekki mætt nema að litlu leyti með fyrirtækjum innan annarra greina mannvirkjaiðnaðar. „Til að stuðla að hraðari og betri íbúðauppbyggingu þarf því að hafa þarfir þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig í slíkri uppbyggingu sérstaklega til hliðsjónar. Þessi fyrirtæki kalla öll eftir stöðugleika og fyrirsjáanleika og að komið sé til móts við þau þegar ytri aðstæður gera þeim ekki kleift að sinna starfi sínu.”

Jóhanna Klara segir einnig í viðtalinu að fyrirtæki sem sérhæfa sig í íbúðauppbyggingu hafi lengi glímt við stefnuleysi stjórnvalda sem hafi þó undanfarið og með tilkomu innviðaráðuneytisins unnið hörðum höndum að því að taka í taumana á málaflokknum, t.a.m. með rammasamningi ríkis og sveitarfélaga og nýrri húsnæðisstefnu stjórnvalda. „Mikilvægt er að vel takist til við stefnumörkun málaflokksins enda uppbygging íbúðarhúsnæðis ein af grundvallarforsendum þess að hér byggist upp samkeppnishæft atvinnulíf og gott samfélag. Ófyrirséðar og fyrirvaralausar breytingar á starfsumhverfi þessara fyrirtækja hafa einnig sett allar áætlanir þeirra úr skorðum með alvarlegum afleiðingum. Má þar m.a. nefna að kostnaður við íbúðauppbyggingu hækkaði mikið á síðasta ári eða um rúmar 7 milljónir króna á íbúð og telur þar helst hækkun fjármagnskostnaðar og byggingarkostnaðar og ekki síst fyrirvaralausar skattahækkanir í formi breytinga á endurgreiðsluhlutfalli af vinnu manna á verkstað sem fór úr 60% í 35%.”

Verk og vit, sérblað með Viðskiptablaðinu, 21. febrúar 2024.

Verk-og-vit-2024-2-1-