Fréttasafn7. jún. 2022 Almennar fréttir Nýsköpun Samtök sprotafyrirtækja

Finna þarf ástæður ójafnvægis í fjárfestingum vísissjóða

Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, hélt erindi á ráðstefnu Framvís um jafnrétti kynjanna í fjárfestingum á Íslandi. Í erindi sínu lagði Nanna Elísa áherslu á mikilvægi samstarfs ólíkra aðila við úrlausn flókinna álitaefna en hún talaði á ráðstefnunni sem fulltrúi Samtaka sprotafyrirtækja, SSP. Nanna Elísa sagði í erindi sínu mikilvægt að finna ástæður ójafnvægis í fjárfestingum vísisjóða  milli karlateyma og kvennateyma en það yrði ekki gert nema að draga ólíka aðila úr umhverfinu að borðinu, kalla eftir áliti allra og raunverulega hlusta á ólíkar skoðanir. Hún sagði það ekki aðeins mikilvægt út frá jafnréttissjónarmiði heldur út frá fjölbreytileika íslensks atvinnulífs.

Í erindinu fór Nanna Elísa yfir fjölbreytileika íslensks iðnaðar og árangur Samtaka iðnaðarins og Samtaka sprotafyrirtækja, SSP, við að leiða saman mismunandi aðila með sama markmið. Í máli hennar kom fram að SSP hafi um nokkurt skeið rætt málefni kynjanna þegar kemur að jafnrétti í fjárfestingum og hafi SSP lagt kapp á að tryggja að fulltrúar kvenleiddra fyrirtækja ættu sæti í stjórn samtakanna og tækju þátt í hagsmunabaráttu sprotafyrirtækja. Þá hafi SSP fylgst með tölfræði um úthlutanir Tækniþróunarsjóðs undanfarin ár með tilliti til hlutfalls kynjanna.

Aðeins fjárfest í einu kvenleiddu teymi árið 2021

Ráðstefnan var haldin í kjölfar háværrar umræðu um ójafnvægi í fjárfestingum vísisjóða þar sem yfirgnæfandi meirihluti fjárfestinga á árinu 2021 var í teymum leiddum af körlum. Aðeins var fjárfest í einu kvenleiddu teymi á árinu 2021 samkvæmt samantekt Northstack á fjárfestingum árið 2021. Á ráðstefnunni var kynnt niðurstaða greiningar KPMG á gögnum vísisjóðanna um fjárfestingar sínar. Það eru sjóðirnir Frumtak Ventures, Brunnur, Iðunn, Crowberry Capital, Eyrir Venture Management og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtak Ventures og formaður Framvís, sagði á ráðstefnunni að markmiðið væri að auka gagnsæi um fjárfestingar vísisjóða „og opna á umræðu, til að breytingar megi verða í átt að auknu jafnrétti.“

Í erindi KPMG, sem byggir á skýrslu sem verður birt í heild sinni á næstu vikum, kom fram að á árunum 2019 og 2020 nam fjárfesting í kvennateymum um 11-12% af fjárfestu fjármagni frá vísisjóðunum á meðan 60-73% fóru til karlateyma. Á árinu 2021 fór einungis 2% af fjármagninu í kvennateymi. Á sama tíma fór um 53% af fjármagninu í blönduð teymi. Til samanburðar var hlutfall fjárfestinga til kvennateyma erlendis á árunum 2019-2021 einungis um 2% og um 8-11% í blönduð teymi.

Nanna-fundur-juni-2022_2

Nanna-fundur-juni-2022Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.