Fréttasafn13. mar. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Fjaðrandi bátasæti Safe Seat sigraði Gulleggið 2017

Viðskiptahugmyndin Safe Seat, sem er fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi, sigraði Gulleggið 2017, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Forstetafrúin Eliza Reid og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhentu verðlaunagripinn Gulleggið 2017 í Hörpu síðastliðinn laugardag. Sigurvegararnir hlutu að launum 1 milljón króna styrk frá Landsbankanum.

Í öðru sæti var S. Stefánsson & Co., en þau hanna hágæða útivistarfatnað, einangraðan með íslenskum æðardún. Þau hlutu jafnframt að launum 500.000 króna styrk frá Landsbankanum. Í þriðja sæti var hugmyndin Project Monsters, sem er einstaklingsmiðaður námsleikur sem eykur færni og skilning og er ætlað að veita skólum forskot inn í framtíðina. Þau hlutu að launum 300.000 króna styrk frá Landsbankanum. Í ár tóku þátt 125 viðskiptahugmyndir, en keppnin hefur staðið yfir síðustu tvo mánuði. 

Nútíminn stóð jafnframt fyrir vali fólksins sem er opin netkosning, en þá viðurkenningu hlaut fyrirtækið BlissApp, en forritið er ætlað að veita þeim sem ekki geta tjáð sig með hefðbundnum hætti, s.s. fötluðum eða einhverfum, aukið frelsi til samskipta.

Gulleggið er haldið á vegum Icelandic Startups í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Bifröst og Listaháskóla Íslands með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi. Í ár fagnar Gulleggið tíu ára afmæli en yfir 2.300 hugmyndir hafa borist í keppnina frá upphafi. Ár hvert hafa tíu hugmyndir verið valdar í sérstakan úrvalshóp. Af þeim 100 viðskiptahugmyndum sem eru í þeim hópi er tæplega helmingur þeira enn starfandi. Samanlögð áætluð velta þeirra árið 2016 var um 3,7 milljarðar króna. Þá hafa þessi fyrirtæki skapað yfir 300 störf og 38% einstaklinga úr þeim hópi stofnað enn annað fyrirtæki.