Fréttasafn1. des. 2014 Almennar fréttir

Fjallað um breytingar, tækifæri og fyrirmyndir á aðventugleði kvenna í iðnaði

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins bauð konum í iðnaði til aðventugleði sl. fimmtudag. Fundurinn var með léttu yfirbragði en markmiðið var að konur sem starfa í iðnaði hittust til að spjalla og tengjast.

Fimm kraftmiklar konur fluttu stutt og áhugaverð erindi sem tengdust starfi þeirra eða starfsframa. Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, Perla Björk Egilsdóttir, framkvæmdastjóri Saga Medica og Sigrún Eva Ármannsdóttir, forstöðumaður veflausna hjá Advania fóru vítt og breitt um sviðið og fjölluðu m.a. um breytingar og viðhorf til þeirra, tækifærin og hvernig við nýtum þau og nauðsyn þess að ungar konur eigi sér góðar fyrirmyndir. Í lokin sögðu Aðalheiður Guðjónsdóttir og Lovísa Þorsteinsdóttir frá Team Spark, sem er Formula Student lið Háskóla Íslands. Verkefnið snýst um að hanna og smíða eins manns rafmagnskappakstursbíl. Keppt er með bílinn erlendis í alþjóðlegri verkfræðikeppni við bestu tækniháskóla heims. Íslenska liði hefur hlotið mikla athygli fyrir gott hlutfall af stelpum og strákum en liðið er með 2 stelpur í stjórn á móti 2 strákum og í ár eru 11 stelpur skráðar í liðið sem telst mjög gott á þessu sviði.

Allar konur í fyrirtækjum SI voru boðnar velkomnar en sérstök áhersla lögð á að ná til kvenna í stjórnenda- og millistjórnendastöðum. Óhætt er að segja að samkoman hafi heppnast vel en um 70 konur mættu og áttu saman notalega og skemmtilega stund.