Fréttasafn



1. sep. 2017

Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar grein í Morgunblaðinu í dag:

Þó Ísland sé á í fremstu röð meðal annarra þjóða, samkvæmt ýmsum mælikvörðum, má gera enn betur. Framundan eru margvíslegar áskoranir sem snúa að umgjörð hagkerfisins, uppbyggingu atvinnuvega og aðlögun að tækniþróun svo dæmi séu tekin. Samtök iðnaðarins eru reiðubúin að leggja sín lóð á vogarskálarnar og vinna að umbótum í íslensku samfélagi.

Iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku efnahagslífi með um þriðjung landsframleiðslunnar. Íslenskur iðnaður skapar 36% gjaldeyristekna þjóðarbúsins og fimmta hvert starf verður til í fjölbreyttri starfsemi á sviði framleiðslu-, mannvirkja- og hugverkaiðnaðar. Íslenskur iðnaður er því ein af lykilforsendum velmegunar í landinu. Innan Samtaka iðnaðarins eru um 1.400 aðildarfyrirtæki sem starfa á ólíkum sviðum en sameinast um einstök málefni sem eru iðnaðinum og þar með landsmönnum öllum til framdráttar.

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á fjórar stoðir; menntun, nýsköpun, innviði og starfsumhverfi íslenskra iðnfyrirtækja. Umbætur á öllum þessum sviðum gera það eftirsóknarverðara að búa á Íslandi og leiða til aukinnar framleiðni og hagsældar fyrir alla landsmenn. Samtök iðnaðarins eru hreyfiafl í íslensku samfélagi sem vill taka frumkvæði í mikilvægum málum sem varða iðnaðinn í landinu og taka þátt í að leysa verkefni með skapandi hætti og nýjum hugmyndum.

Nú þegar fjórða iðnbyltingin er hafin með sínum tækifærum og áskorunum er mikilvægt að stilla saman strengi í þjóðfélaginu. Leggja þarf áherslu á að efla iðn-, tækni- og raungreinamenntun þar sem skortur er fyrirsjáanlegur á starfsfólki með slíka menntun. Forritun er mál 21. aldarinnar og því mikilvægt að hún verði gerð að skyldufagi í grunnskólum. Þar þarf sameiginlegt átak atvinnulífs og stjórnvalda. Menntakerfið okkar verður að aðlaga sig hratt að nýjum veruleika þar sem starfskraftar framtíðarinnar eru að mennta sig núna.

Samtök iðnaðarins hafa skýr markmið um að Ísland standi jafnfætis þeim löndum sem standa sig hvað best í nýsköpun í heiminum. Á þeim vettvangi eru mörg tækifæri sem hægt er að nýta til að bæta stöðu okkar. Á þessu sviði verðum við að mæta alþjóðlegri samkeppni um umgjörð nýsköpunar.

Sterkir innviðir eru forsenda þess að atvinnulífið blómstri um allt land. Það verður að tryggja öryggi og aðgengi hvort sem litið er til samgangna, fjarskipta, raforku eða gagnatenginga. Á síðustu árum hefur of lítið verið fjárfest í innviðum og því brýnt að bæta þar úr. Til að styðja við hagvöxt næstu ára er nauðsynlegt að ráðast í verulega uppbyggingu innviða landsins í samstarfi hins opinbera og einkaaðila.

Stöðugt starfsumhverfi skiptir sköpum fyrir atvinnulífið svo að áætlanir fram í tímann fái staðist. Bæði regluverk og skattkerfi eiga að vera einföld og skilvirk. Ein af helstu áskorunum stjórnvalda er að auka stöðugleika. Mikilvægast er að ráðast að rót vandans sem fólginn er í miklum raunvaxtamun við útlönd og ætti að horfa til þess við endurskoðun peningastefnu sem nú stendur yfir. Eins þurfa stjórnvöld og Seðlabanki að ganga í takt. Ríkisfjármál eiga að vera í takti við hagsveiflurnar þegar sýna þarf aðhald á hagvaxtarskeiði og bæta í þegar hagkerfið dregst saman.

Samtök iðnaðarins vilja eiga gott samstarf við stjórnvöld um umbætur á öllum sviðum og leggja sitt af mörkum. Sé tekist á við helstu áskoranir með skapandi hætti, nýjum hugmyndum, kjarki og metnaði mun Ísland áfram verða í fremstu röð.

Sigurður Hannesson,

framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Morgunblaðið, 1. september 2017.