13. mar. 2020 Almennar fréttir

Fjarfundur um viðbragðsáætlanir aðildarfyrirtækja SI

Áhrifa COVID-19 á samfélagið gætir víða og þar á meðal á fyrirtæki sem eru misjafnlega í stakk búin til að takast á við að vernda starfsfólk og starfsemi þeirra. Starfsemi margra fyrirtækja er á þann hátt að ekki er hægt að bjóða starfsmönnum að vinna í fjarvinnu, t.d. í framleiðslufyrirtækjum, og hafa því mörg fyrirtæki innan Samtaka iðnaðarins komið sér upp viðbragðsáætlun til að draga úr líkum á að loka þurfi framleiðslu eða annarri starfsemi.

Samtök iðnaðarins í samstarfi við Mannauð, félag mannauðsfólks á Íslandi, efna til fjarfundar mánudaginn 16. mars nk. kl. 13.00-14.00 þar sem fjögur ólík fyrirtæki kynna viðbragðsáætlanir sínar eða ráðstafanir í beinu streymi á Facebook-síðu Samtaka iðnaðarins.

Fundurinn er ætlaður fyrirtækjum til upplýsinga og leiðbeininga um með hvaða hætti hægt er að vernda starfsfólk, framleiðslu og starfsemi almennt fyrir COVID-19.

Fyrirtækin sem kynna viðbragðsáætlanir sínar eru:

Rio Tinto á Íslandi
MS
Myllan
Þúsund fjalir

Á meðan á kynningum stendur gefst fjarfundargestum tækifæri á að senda fyrirspurnir til fyrirtækjanna á streymisslóð fjarfundarins.

Á fundinum verður einnig fulltrúi frá vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins sem svarar spurningum er tengjast starfsmannamálum.


Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.