Fréttasafn



9. sep. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Fjárlagafrumvarpið felur í sér jákvæð tíðindi en líka mínusa

„Okkur finnst frumvarpið fela í sér jákvæð tíðindi, alla vega þegar við horfum upp á það að hallinn er fimmtán milljarðar sem er minna en mátti búast við,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við mbl.is um fjárlagafrumvarpið 2026 og bætir því við að minni halli ýti undir stöðugleika og ætti að stuðla að því að draga úr verðbólgu og ná niður vöxtum. Hann segir að SI fagni því að ríkisstjórnin hafi lagt sig fram um að ná hallanum niður, á móti komi hins veg­ar ákveðin óvissa um efnahagsforsendurnar. „Gengið er út frá því að efnahagsaðstæður séu tiltölulega hagfelldar og við það styrkist tekjuhliðin en að þessu er ekki hægt að ganga vísu.“ 

Heilt yfir kveðst Sigurður ánægður með fjárlagafrumvarpið, sérstaklega að boðaður halli verði ekki meiri og unnið sé að auknum stöðugleika sem skipti heimili og ekki síður fyrirtæki lands­ins mjög miklu máli. „Ég get ekki ímyndað mér annað en að Seðlabankinn taki þessu vel sem ætti að flýta fyrir lækkun vaxta, þannig að þarna eru plús­ar og mínusar eins og gengur.“

Á vef mbl.is er hægt að lesa viðtalið við Sigurð í heild sinni.

mbl.is, 8. september 2025.

RÚV / Spegillinn, 8. september 2025.

Saknar endurgreiðslu á virðisaukaskatti

Í Morgunblaðinu segir Sigurður um fjárlagafrumvarpið: „Almennt séð eru þarna þættir sem styðja við að ná niður vöxtum og verðbólgu en varðandi húsnæðismálin eru þau flóknara mál og við þurfum að sjá aðeins betur á spilin í sértækum aðgerðum.“ Sigurður kveðst sakna áherslu á þætti á borð við endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna á verkstað sem síðasta ríkisstjórn hafi lækkað og þar með dregið úr hvötum til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis.

Morgunblaðið, 9. september 2025.

Morgunbladid-09-09-2025