Fréttasafn7. jún. 2022 Almennar fréttir Menntun

Fjármagn fylgir ekki aukinni aðsókn í iðnnám

Rætt er við Árna Sigurjónsson, formann SI, í Fréttablaðinu um þá stöðu í skólakerfinu að 700 manns var vísað frá iðnnámi á Íslandi á síðasta ári. Árni segir vandann í þessum efnum vera þann að fjármagn fylgi ekki aukinni spurn eftir iðnnámi. „Við fórum í átak fyrir nokkrum árum til að bæta ímynd starfs- og tæknináms sem tókst gríðarlega vel.“ 

Árni segir í Fréttablaðinu að ásóknin í námið hafi aukist hraðar en nokkur maður hafi átt von á. „En við erum ekki úrkula vonar eftir samtöl okkar við stjórnvöld,“ segir hann og metur það svo að þar sé metnaður til að gera betur. „Miðað við þau samskipti sem við höfum átt við menntamálayfirvöld erum við bjartsýn á að efndir fylgi orðum,“ segir Árni og minnir jafnframt á að viljayfirlýsing liggi fyrir þess efnis að byggja eigi nýjan og stærri Tækniskóla í Hafnarfirði, sem eigi að geta lagað sig að aðstæðum hvað nemendafjölda og mannaflaþörf í iðnaði varðar í framtíðinni.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 4. júní 2022.