Fréttasafn22. jan. 2015 Iðnaður og hugverk

Fjármálaráðherra í skoðunarferð um gagnaver á Reykjanesi

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra er nú í skoðunarferð á Reykjanesi þar sem hann heimsækir gagnaver á vegum Advania og Verne í boði Samtaka gagnavera á Íslandi. Heimsóknin sem er skipulögð af Samtökum iðnaðarins (SI) hófst kl. 9.30 og gert er ráð fyrir að henni ljúki upp úr kl. 11. Með Bjarna í för er framkvæmdastjóri SI, Almar Guðmundsson.

Markmiðið með heimsókninni er að vekja athygli stjórnvalda á hinum ört vaxandi gagnaversiðnaði hér á landi og tækifærunum sem í honum felast, m.a. til að fjölga störfum sem krefjast mikillar tækniþekkingar.

Heimsókn Bjarna hófst í gagnaveri Advania, Mjölni á Fitjum, þar sem Eyjólfur Magnús Kristinsson, formaður DCI Samtaka gagnavera og Gestur G. Gestsson forstjóri Advania kynntu fyrir Bjarna uppbyggingu þessa nýja gagnavers sem telur um 2.500 fermetra og hóf rekstur sl. sumar.

Því næst var haldið í gagnaver Verne að Ásbrú en forsvarsmenn þess, Isaac Kato og Helgi Helgason, kynntu fyrir fjármálaráðherra fyrirhugaða stækkun gagnaversins í kjölfar vel heppnaðs hlutafjárútboðs nýverið á meðal íslenskra og erlendra fjárfesta.

Með í för eru Kolbeinn Kolbeinsson og Eyjólfur Á. Rafnsson stjórnarmenn SI, Gunnar Zoëga og Finnur Oddsson frá Nýherja ásamt Katrínu D. Þorsteinsdóttur, forstöðumanni hugverkaiðnaðar hjá SI og Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni fjármálaráðherra.

Almar Guðmundsson: „Mikil vaxtatækifæri eru í rekstri gagnavera á Íslandi. Möguleikar Íslands felast í endurnýjanlegri orku, samkeppnishæfu orkuverði, náttúrulegri kælingu, tækniþekkingu, mannauði og stöðugu stjórnamála- og efnahagsumhverfi. Sem dæmi um vöxt iðnaðarins á Íslandi hafa orkukaup hans aukist úr 1 MW í 20 MW á einungis 2 árum og gerir Landsvirkjun ráð fyrir að orkusala til gagnavera verði komin í 100 MW innan 5 ára.“