Fjöldi umsókna um skattaafslátt vegna erlendra sérfræðinga
Fjöldi fyrirtækja og stofnana nýtti sér á síðasta ári heimild til þess að sækja um frádrátt frá tekjuskatti fyrir erlenda sérfræðinga sem ráðnir eru til starfa hér á landi vegna sérþekkingar og reynslu. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins en 113 umsóknir um frádráttinn bárust í fyrra og voru 111 þeirra afgreiddar. 77% umsóknanna voru samþykktar eða 87 umsóknir. Umsækjendur eru frá 34 löndum. Þar af er 21 umsækjandi frá Íslandi, en þar er um að ræða einstaklinga sem dvalist hafa erlendis við nám eða störf og komið til Íslands til starfa að því loknu. Þá eru 14 frá Indlandi og 12 frá Bandaríkjunum en færri sérfræðingar frá öðrum ríkjum.
Samtök iðnaðarins hafa lagt áherslu á að umgjörð fyrirtækja til að taka á móti erlendum sérfræðingum verði efld enn frekar líkt og tiltekið er í nýsköpunarstefnu SI. Um er að ræða mikið hagsmunamál, sérstaklega fyrir hátæknifyrirtæki þar sem hér á landi skortir sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum. Nýr upplýsingavefur, Work in Iceland, var opnaður í september síðastliðnum í samstarfi Íslandsstofu, Samtaka iðnaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Um er að ræða heildstæða upplýsingagátt á ensku sem hefur það að markmiði að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað til búsetu og vinnu. Vefurinn eflir og styður við markaðssetningu á Íslandi í þeim tilgangi að laða til landsins fólk með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum.