Fjölga þarf lóðum og skipuleggja ný hverfi
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í fréttum RÚV að það sé ekki raunhæft að byggja 17 þúsund íbúðir fyrir lok næsta árs en samkvæmt nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs um íbúðaþörf þarf íbúðum að fjölga um 17 þúsund frá 2017 út árið 2019 til að mæta þörf og uppsöfnuðum skorti.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður, ræddi við Sigurð sem segir að Samtök iðnaðarins hafi metið það þannig að það væru 5.600 íbúðir sem myndu klárast 2017, 2018 og 2019. „Það tekur tvö ár frá því fyrsta skóflustunga er tekin, þangað til að hægt er að flytja inn. Þannig að nei, óraunhæft,“ segir Sigurður.
„Þetta er mjög alvarleg staða, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að öll þurfum við þak yfir höfuðið. Þetta hefur verið vandamál í nokkur ár, mikil eftirspurn eftir húsnæði, sem ekki hefur verið mætt með framboði, aðallega vegna þess að það vantar lóðir,“ segir Sigurður. Hann segir það brýnasta sé að fjölga lóðum og skipuleggja fleiri hverfi. „Ég held að þetta hljóti að verða stærsta málið í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Og það er umhugsunarefni að í öðrum löndum þar sem þarlendir hafa glímt við svipuð vandamál, hefur ríkisvaldið stigið inn í og gert þá kröfu að sveitarfélögin skipuleggi ný hverfi.“
Hér er hægt að horfa á fréttina á vef RÚV.
Þriðjungur byggður af því sem talin er þörf á
Í fréttinni er greint frá því að samkvæmt upplýsingum frá Samtökum iðnaðarins voru rúmlega 1.500 íbúðir fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. „Samkvæmt spá samtakanna verða íbúðirnar rúmlega 2.000 á þessu ári og aftur rúmlega 2.000 á því næsta. Samtals verði því byggðar rúmlega 5.600 íbúðir frá 2017 til 2019, eða um þriðjungur af því sem Íbúðalánasjóður telur að þörf sé á. Samtök iðnaðarins setja þann fyrirvara að þeirra tölur gildi aðeins um höfuðborgarsvæðið. Þörfin sé þó að langmestu leyti bundin við það svæði,“ segir í fréttinni.
Hér fyrir neðan er mynd sem unnin er hjá Samtökum iðnaðarins og sýnir mismuninn.