Fréttasafn



10. júl. 2025 Almennar fréttir Menntun

Fjölga þarf nemendaígildum í Hótel- og matvælaskólanum

Haraldur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Hótel- og matvælaskólans, kom nýverið í heimsókn til Samtaka iðnaðarins og fundaði með Huldu Birnu Kjærnested Baldursdóttur, sérfræðingi í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, og Sigurði Helga Birgissyni, viðskiptastjóra á iðnaðar- og hugverkasviði SI. Sigurður hefur meðal annars umsjón með félögum innan kjötiðnar og bakaraiðnar. Tilefni fundarins var að ræða stöðu náms í kjötiðn og öðrum greinum innan matvælaiðnaðarins, ásamt aðsókn, aðstöðu og framtíðarsýn skólans. Á fund þeirra kom meðal annars fram að aðstaða í nokkrum greinum innan Hótel- og matvælaskólans væri sprungin og nauðsyn væri á fjölgun nemendaígilda til að mæta þörfum eldri nemenda sem sækja í nám. Einnig að þörf væri á sveigjanlegri úrræðum, svo sem fjarnámi, dreifnámi eða staðlotum, til að tryggja að fleiri geti komist að og öðlast þá færni og hæfni sem atvinnulífið krefst. Þá kom fram að sérstaklega mikil aðsókn væri í nám í matartækni. Þar skipti máli að nemendur hafi aðgang að vottuðum eldhúsum og tæknibúnaði sem uppfylli strangar gæðakröfur, enda beri starfsfólk í greininni ríka ábyrgð á heilsu og öryggi neytenda.

Gott samstarf skólans og fyrirtækja í matvælaiðnaði

Jafnframt kom fram á fundinum að framtíð Hótel- og matvælaskólans er björt enda ríki gott samstarf milli skólans og fyrirtækja í matvælaiðnaði. Mikilvægt væri að tryggja næga menntun og hæft starfsfólk í greininni, enda liggi þar grundvöllur að gæðum, öryggi, neytendaverndog samkeppnishæfni íslensks iðnaðar.

Hulda Birna og Sigurður segja að Samtök iðnaðarins leggi ríka áherslu á að skapa skilyrði fyrir öflugt vinnustaðanám og menntun í iðngreinum. Fjölgun nemenda í kjötiðn og öðrum faghópum matvælaiðnaðarins sé mikilvægur þáttur í að tryggja framtíðarþarfir atvinnulífsins og styrkja íslenskan iðnað til lengri tíma.

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, Sigurður Helgi Birgisson og Haraldur Sæmundsson.