Fréttasafn22. apr. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Menntun Samtök rafverktaka

Fjölga þarf verulega rafvirkjum sem ljúka sveinsprófi

Hjörleifur Stefánsson, formaður Samtaka rafverktaka, skrifar í helgarútgáfu Morgunblaðsins um 75 ára afmæli samtakanna:

„Í ár fagna Samtök rafverktaka, Sart, því að 75 ár eru liðin frá því að nokkrir rafvirkjameistarar komu saman í húsi Verslunarmannafélags Reykjavíkur við Vonarstræti í þeim tilgangi að stofna Landssamband íslenskra rafvirkjameistara. 

Í upphafi var ástæða stofnunar samtakanna skýrð með þessum hætti: Um þessar mundir voru um 24 þúsund íbúar í Reykjavík eða að meðaltali 4.800 íbúar á hvern rafvirkjameistara. Meirihluti félagsmanna leit þá svo á að óþarft væri að fjölga rafvirkjameisturum í bænum og er fyrsta bréfið sem getið er um í fundargerð ritað af rafmagnsstjóra af þessu tilefni. Segir þar á einum stað: „Samkeppnin er hér orðin óhæfileg, en það stafar af því að í bænum er ekki til nægileg vinna handa þessum fimm mönnum og þó vinnur einn þessara manna einn síns liðs.“ Innflutningshöft og skortur á efni til raflagna var meðal helstu hvata að stofnun samtakanna. Sem dæmi um ástand og höft þeirra tíma má nefna að samþykkt var á aðalfundi 1961 að viðsjárvert væri að innflutningsyfirvöld neyddu menn til þess að flytja inn ljósaperur sem sundruðust framan í notendur. 

Nú er öldin önnur og samkvæmt nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins telja stjórnendur fyrirtækja innan Samtaka rafverktaka að fjölga þurfi rafvirkjum um að minnsta kosti 800 á næstu fimm árum, sem er rúmlega 30% fjölgun starfandi rafvirkja á markaðnum. Miðað við þá miklu þörf sem er á innviða- og íbúðauppbyggingu hér á landi, auk væntanlegra orkuskipta á næstu árum, er líklegt að þörfin fyrir rafvirkja gæti orðið mun meiri en niðurstöður greiningarinnar sýna. 

Fyrirtæki innan Sart eru rúmlega 200 með hátt í 1.900 starfsmenn og innan raða þeirra eru fyrirtæki úr öllum geirum rafiðnaðar, allt frá einyrkjum upp í stærstu rafiðnaðarfyrirtæki landsins. Samtök rafverktaka hafa verið aðilar að Samtökum iðnaðarins frá árinu 2012. 

Hvar sem borið er niður er hröð tækniþróun; í fjarskiptum, í orkuöflun og –dreifingu, í snjalllausnum, í lýsingarbúnaði, í rafbílahleðslum og svo mætti lengi telja. Öll þessi tækni kallar á aðkomu rafiðnaðarfólks sem sér um að frágangur á þessum búnaði sé öruggur því um leið og rafmagnið léttir okkur lífið þá getur rangur frágangur valdið margvíslegri hættu. Því er mikilvægt að menntakerfið nái að anna færniþörf þegar litið er til framtíðar. Það er af sem áður var þegar ekki var næga vinnu að hafa fyrir rafvirkjameistarana fimm. Við blasir að fjölga þarf verulega rafvirkjum sem ljúka sveinsprófi, annars er viðbúið að skortur á fagfólki gæti dregið úr tækifærum til vaxtar hér á landi.“

Morgunblaðið, 20. apríl 2024.

Morgunbladid-20-04-2024_3