Fréttasafn8. apr. 2019 Almennar fréttir Framleiðsla

Fjölgað í verkefnastjórn og ráðherranefnd um matvælastefnu

Umboð verkefnisstjórnar sem unnið hefur að áfangaskýrslu um mótun matvælastefnu fyrir Ísland frá því í ágúst 2018 verður endurnýjað og fjölgað í verkefnisstjórninni. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands þar sem segir að jafnframt verði sett á fót sérstök ráðherranefnd til að fjalla um matvælastefnu fyrir Ísland enda muni matvælaframleiðsla verða eitt af stóru viðfangsefnum stjórnmálanna í framtíðinni og varðar mótun stefnunnar málefnasvið fjölmargra ráðuneyta. Fast sæti eigi forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og heilbrigðisráðherra. Aðrir ráðherrar taki sæti á fundum nefndarinnar eftir því sem tilefni er til. Þetta var samþykkt á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum ráðherra, Bændasamtaka Íslands, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum verslunar- og þjónustu og Neytendasamtökunum. Verkefnisstjórnin skilaði ráðherra áfangaskýrslu í lok mars 2019.

Á vef Stjórnarráðs Íslands er hægt að lesa nánar um matvælastefnu fyrir Ísland.