Fréttasafn6. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Fjölmörg ónýtt tækifæri í gagnaversiðnaði hér á landi

„Þótt rekstrarumhverfi íslenskra gagnavera hafi breyst til hins betra á undanförnum árum eru enn fjölmörg ónýtt tækifæri í greininni. Í mati sínu á því hversu auðvelt er að stunda viðskipti í ríkjum heims setur Alþjóðabankinn Ísland í 23. sæti, á meðan Danmörk er í þriðja sæti, Noregur í áttunda og Svíþjóð í tíunda. Það sama gildir um skattaumhverfið þar sem Ísland er í 29. sæti, langt að baki samkeppnisríkjum eins og Írlandi, Danmörku og Kanada. Úr þessu þurfum við að bæta, svo halda megi áfram að skapa verðmæti til hagsbóta fyrir land og þjóð. Áherslur nýrrar ríkisstjórnar gefa ástæðu til bjartsýni, enda er rík áhersla lögð á nýsköpun, menntun og þróun í stjórnarsáttmálanum sem undirritaður var í síðustu viku.“ Þetta skrifar Jóhann Þór Jónsson, forstöðumaður rekstrar hjá Advania Ísland og formaður Samtaka Gagnavera (DCI) sem er aðildarfélag SI, í Markaðinn sem fylgir Fréttablaðinu í dag.

Jóhann Þór segir jafnframt í greininni að hugverkaiðnaður og skapandi greinar verði drifkraftur breytinga á komandi árum og því muni uppbygging tæknilegra innviða auka möguleika hugverkaiðnaðarins á að skapa aukin verðmæti. „Draumurinn um að laða erlenda tækni- og tölvurisa til Íslands hefur lengi einkennt umræðuna um uppbyggingu gagnaversþjónustu á Íslandi. Draumurinn um að einhver hinna stóru, Google, Apple eða Facebook, reisi hér gagnageymslu hefur þannig yfirskyggt starfsemi þeirra átta fyrirtækja sem hafa skipulega byggt upp sína þjónustu hérlendis á undanförnu árum með góðum árangri. Í stað þess að bíða þess sem verða vildi hafa þau sýnt frumkvæðið, fundið stóra og smáa viðskiptavini um allan heim, selt þeim margvíslega þjónustu á sviði upplýsingatækni og skapað í leiðinni mikil verðmæti fyrir íslenskt samfélag.“

Greinina er hægt að lesa í heild sinni á Vísi