Fréttasafn



8. mar. 2019 Almennar fréttir

Fjórða hvert starf á Íslandi líklegt til að verða sjálfvirknivætt

Fjórða iðnbyltingin mun vekja enn fleiri og áleitnari spurningar um það hvort leiðarljós okkar í dag, hin klassíska frjálslyndisstefna, hafi ennþá svörin og geti tryggt okkur áframhaldandi bætt lífskjör, kynslóð fram af kynslóð. Þetta kom meðal annars fram í ræðu Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Iðnþingi 2019 sem fram fór í Hörpu. 

Hún sagði að í nýrri skýrslu sem forsætisráðherra hafi látið vinna um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna komi fram að meira en fjórða hvert starf á íslenskum vinnumarkaði teljist mjög líklegt til að verða sjálfvirknivætt á næstu 10 til 15 árum sem hefði bein áhrif á um 50 þúsund manns.

„Að sjálfsögðu verða líka til ný störf, en líklegt er að stór hluti þeirra muni krefjast sérþekkingar sem óvíst er að þetta fólk muni hafa tækifæri til að tileinka sér. Við þessum spám þarf augljóslega að bregðast, og höfundar benda á ýmislegt sem stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin og einstaklingarnir sjálfir geta gert. Fyrir utan þá áskorun að aðlaga þarf menntakerfið og þróun þess að þessum veruleika með að leggja áherslu á að efla dómgreind og hina skapandi og mannlegu þætti, er hitt meginverkefnið efling nýsköpunar. Nýsköpunarstefna fyrir Ísland sem nú er í smíðum í mínu ráðuneyti er þess vegna eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnar að mínu mati.“

Á vef stjórnarráðsins er hægt að lesa ræðu ráðherra í heild sinni.