Fréttasafn



20. okt. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Fjöreggið fór til Matís og Matvæla- og næringarfræðideildar HÍ

Fjöregg MNÍ 2016 var afhent í dag á ráðstefnu Matvæladags Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands (MNÍ) sem haldin var á Hótel Natura. Fjöreggið er veitt fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði og er verðlaunagripurinn íslenskt glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík. Viðurkenningin hefur frá upphafi verið veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins og afhenti Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, verðlaunin. Fjöreggið hlaut að þessu sinni Matís og Matvæla- og næringafræðideild HÍ fyrir árangursríkt samstarf um rannsóknir og kennslu í matvælafræði.

Í dómnefnd sátu Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Grímur Ólafsson, matvælafræðingur og fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, Lilja Rut Traustadóttir, næringarfræðingur og gæðastjóri hjá Gæðabakstri/Ömmubakstri, og Rakel Garðarsdóttir, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Vakandi. Fimm aðilar voru tilnefndir til verðlaunanna og hlutu viðurkenningar: Eimverk, Fisherman, Kaldi bruggsmiðja, Matís og Matvæla- og næringafræðideildar HÍ og Norður & Co

Eimverk hlaut tilnefningu fyrir árangursríkt frumkvöðlastarf við framleiðslu og markaðssetningu á sterku áfengi úr íslensku hráefni. Fisherman fyrir  að flétta saman sögu, matvælum og ferðamennsku á nýstárlegan hátt. Kaldi bruggsmiðja fyrir brautryðjendastarf á sviði bruggunar á handverksbjór og árangursríkrar markaðssetningar. Norður & Co fyrir Norðursalt.