Fréttasafn



5. okt. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Fjórir flokkar áforma að draga úr samkeppnisrekstri hins opinbera

Einungis fjórir flokkar af átta sem hlutu kosningu til Alþingis áforma að draga úr samkeppnisrekstri hins opinbera og auka útvistun verkefna. Það eru Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Viðreisn. VG og Flokkur fólksins áforma ekki slíkt. Píratar og Samfylking svara ekki. Þetta kemur fram í könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu meðal þeirra flokka sem tóku þátt í kosningafundi SI. Átta flokkar svöruðu spurningunum en Sósíalistaflokkurinn sem ekki komst á þing svaraði ekki.

Þá kemur fram í niðurstöðunum að sjö flokkar af átta áforma að auka samkeppniseftirlit með starfsemi opinberra fyrirtækja. VG, einn flokka, vildi ekki svara.

Svarmöguleikar í könnunni voru þrír: JÁ - grænn litur. NEI - rauður litur. VIL EKKI SVARA - gulur litur.

Svor-Starfsumhverfi_1633426418787


  1. Beita af fullum þunga fjármálum ríkisins til þess að skapa kröftuga viðspyrnu fyrir hagkerfið inn í nýtt hagvaxtarskeið?
  2. Skapa stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja?
  3. Létta álögum af fyrirtækjum eins og kostur er, m.a. með lækkun tryggingagjalds?
  4. Auka samkeppniseftirlit með starfsemi opinberra fyrirtækja?
  5. Draga úr samkeppnisrekstri hins opinbera og auka útvistun verkefna?
  6. Vinna að markvissri endurskoðun á gildandi regluverki með það að markmiði að einfalda regluverk og draga úr óþarfa reglubyrði?
  7. Að meta áhrif á atvinnulífið og á samkeppnishæfni Íslands við setningu nýrra reglna?


Umtalsverður samkeppnisrekstur hins opinbera

Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um áhrif fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga á samkeppni kemur fram að 70% forsvarsmanna opinberra stofnana hafa átt í einhverri samkeppni við einkaaðila árið 2018. Skýrslan var unnin að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og var markmiðið að meta áhrif samkeppnisreksturs hins opinbera á virka samkeppni og heilbrigði atvinnulífs hér á landi.

Í skýrslunni kemur skýrt fram að samkeppnisrekstur hins opinbera er umtalsverður og spannar breytt svið. Það er mat Samtaka iðnaðarins að í skýrslunni hefði mátt ganga lengra í að leggja sjálfstætt mat á heildarumsvif samkeppnisreksturs hins opinbera, þar á meðal samkeppnisrekstur innan ríkisstofnana.

Stuðningur sem raskar samkeppni 

Í skýrslunni bendir Hagfræðistofnun á að ríki og sveitarfélög styðji fyrirtæki sín með ýmsum hætti, t.d. með beinum fjárframlögum, beinum og óbeinum lánsábyrgðum og með því að krefjast minni arðsemi en gengur og gerist. Að mati Samtaka iðnaðarins er slíkur stuðningur til þess fallinn að raska samkeppni á markaði og styrkja stöðu ríkisrekinna fyrirtækja. Samtökin hefðu viljað sjá í skýrslunni greiningu á því hvort sá stuðningur feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð og telja samtökin mikilvægt að slíkt verði metið.

Ná þarf jöfnuði með opinberum fyrirtækjum og einkafyrirtækjum

Í skýrslunni leggur Hagfræðistofnun áherslu á að stigin verði skref til að ná jöfnuði með opinberum fyrirtækjum og einkafyrirtækjum, eða svokallað samkeppnislegt hlutleysi. Samtök iðnaðarins taka undir það sjónarmið.

Með markvissum aðgerðum væri hægt að tryggja virka samkeppni

Hagfræðistofnun bendir m.a. á í skýrslunni að setja þurfi samkeppnisrekstur í dótturfélög, afmarka betur starfssvið opinberra fyrirtækja, setja skýrari afkomumarkmið og draga úr eigendaábyrgðum á lánum. Samtök iðnaðarins telja að með markvissum aðgerðum væri hægt að tryggja virka samkeppni á markaði enda getur þátttaka hins opinbera á markaði haft neikvæð áhrif á samkeppni, sér í lagi þegar félög í eigu ríkisins hafa yfirburðastöðu og rekstur þess felur í sér aðgangshindrun á markað. 

Í könnun sem SI gerði meðal félagsmanna sinna kemur fram að ríflega 47% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að mikilvægt sé að draga úr samkeppnisrekstri opinberra aðila og einungis 17% segja þetta skipta litlu máli. Um 35% svara þessari spurningu með hvorki né. Endurspeglar þessi niðurstaða að samkeppnisrekstur ríkisins er fyrirferðamikill í rekstarumhverfi iðnfyrirtækja. Það er mat Samtaka iðnaðarins að á nokkrum sviðum iðnaðar sé hið opinbera í allt of umfangsmiklum rekstri.

Stjórnvöld setji skýr viðmið um hvernig hið opinbera styður við og eflir samkeppni

Samtök iðnaðarins telja að skapa verði eðlileg rekstrarskilyrði fyrirtækja á einkamarkaði sem í mörgum tilvikum þurfa að keppa á ójöfnum grundvelli við stofnanir og opinber fyrirtæki. Virk samkeppni í viðskiptum stuðlar að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og hámarkar velferð almennings. Samkeppni stuðlar þannig að læga verði, auknum gæðum, bættri þjónustu og nýsköpun. Samtökin hvetja stjórnvöld til að setji sér skýr viðmið um hvernig hið opinbera styður við og eflir samkeppni, sér í lagi á þeim sviðum þar sem hið opinbera stundar sjálft samkeppnisrekstur.