Fréttasafn



16. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Fjórir nýir íbúar bitust um hverja nýja íbúð

Uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir um allt land hafa skilað sér í hærra verði og verð hefur hækkað umfram laun. Þetta kemur meðal annars fram í máli Ingólfs Bender, aðalhagfræðingur SI, í hádegisfréttum RÚV þar sem greint er frá því að framboð á húsnæði hafi aukist talsvert og eftirspurnin vaxi hægar í seinni tíð en hins vegar hafi enn ekki verið unnið á uppsafnaðri húsnæðisþörf í landinu. Ingólfur segir að í fyrra hafi 1.300 nýjar íbúðir verið fullbúnar á höfuðborgarsvæðinu en fólksfjölgun hafi verið fjórfalt meiri, þannig að fjórir nýir íbúar hafi bitist um hverja nýja íbúð. 


Betra jafnvægi en á enn eftir að vinna á uppsafnaðri þörf

„Þetta erum við að sjá í aðeins betra jafnvægi núna,“ segir Ingólfur við fréttamann RÚV. „Ein ástæðan fyrir því er meðal annars sú að við erum að sjá fleiri íbúðir koma inn á markaðinn í ár en á síðastliðnu ári, tæplega 2100 íbúðir. Það er talsverður vöxtur í framboðinu og að einhverju leyti er eftirspurnin að vaxa hægar. Það er betra jafnvægi þó svo að við erum ekki enn farin að vinna upp í þessa uppsöfnuðu þörf sem hefur skapast hér á síðustu árum.“

Byggja þarf 45.000 íbúðir fyrir árið 2040

Hann segir að sveitarfélögin þurfi að taka af skarið með auknu framboði á lóðum, sem hafi þó gerst í auknum mæli í seinni tíð eftir talsverða bið. Þá kemur fram í fréttinni að Samtök iðnaðarins telji að ríkið þurfi að beita sér til að jafna frekar sveiflur á fasteignamarkaði. „Við köllum eftir því að menn mæti þeirri þörf sem er í farvatninu. Við þurfum að byggja 45.000 íbúðir á landinu öllu fyrir árið 2040,“ segir Ingólfur. „Þetta er stóra verkefnið og þetta er það sem við köllum eftir að sé leyst með sómasamlegum hætti og betri hætti en verið hefur undanfarin ár. Framboð af lóðum hefur klárlega ekki verið að mæta þeirri þörf sem við höfum séð.“

RÚV, 16. október 2018.