FKA-konur í mannvirkjaiðnaði heimsóttu SI
Konur í mannvirkjaiðnaði í Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA, heimsóttu Samtök iðnaðarins í húsnæði samtakanna í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35. Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, tók á móti konunum og fór yfir stefnu samtakanna, áherslur og verkefni sem verið er að vinna að.
Líflegar umræður urðu um starfsumhverfi fyrirtækja í byggingariðnaði, menntamál og regluverkið sem hópurinn var sammála um að tilefni væri til að gera áframhaldandi breytingar á. Einnig var rætt um fjölgun gallamála og fræðslu til neytenda.
Auk þess var rætt um stöðu kvenna í mannvirkjaiðnaði en kynjahalli í greininni er enn mikill og kom fram í umræðunni að mikilvægt væri að allir hagsmunaaðilar haldi áfram að bæta kynjahlutföllin og aðgengi kvenna að hinum ýmsu störfum í bygginga- og mannvirkjagerð.