Fréttasafn13. jún. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Fleiri stjórnendur telja að aðstæður í atvinnulífinu versni

Væntingar til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði mælast minni meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins en þær hafa verið frá upphafi mælinga, þ.e. minni en þær voru í miðju fjármálahruninu fyrir tæpum 10 árum. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Gallup sem unnin er fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands. 40% stjórnenda telja að aðstæður versni, samanborið við 30% í síðustu könnun, og aðeins 7% telja að þær batni. Væntingar stjórnenda um aðstæður eftir 6 mánuði eru minni í sjávarútvegi, fjármálaþjónustu og ferðaþjónustu en í öðrum atvinnugreinum. Væntingar stjórnenda á þessu ári hafa breyst mikið frá þeirri bjartsýni sem ríkt hefur undanfarin ár líkt og sjá má á neðangreindri mynd. 

Visitala-efnahagslifsins-juni-2018

 

Búast við meiri verðbólgu

Stjórnendur búast við 3% verðbólgu á næstu 12 mánuðum sem er það sama og mældist fyrir þremur mánuðum síðan og er því um að ræða hærri verðbólguvæntingar en undanfarin ár. Þetta er hærra en 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. 

Verdbolguvaentingar-juni-2018

Færri segja vera skort á starfsfólki

27% segja skort á starfsfólki sem er lægra hlutfall en mældist fyrir ári síðan þegar 42% sögðu vera skort. Skortur á starfsfólki er minni í útflutningsgreinum og ferðaþjónustu en öðrum greinum, en mestur skortur á starfsfólki er í byggingariðnaði og verslun. 

Skortur-a-starfsfolki-juni-2018