Fögnum því að innviðaráðherra hyggist sækja aukið fjármagn
Við fögnum því að innviðaráðherra hyggist sækja aukið fjármagn til vegaviðhalds og skorum á ríkisstjórnina að fylgja þeim áherslum eftir. Skilaboðin frá sveitarfélögum, atvinnulífi og almenningi eru skýr: Það er ekki hægt að bíða lengur. Þetta segja Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasvið SI, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein á Vísi með yfirskriftinni Ef það er vilji, þá er vegur.
Þau segja að íslenskir verktakar hafi fulla burði til að taka að sér aukin verkefni og munu standa klárir ef fjármögnun verði tryggð. „Meðal þeirra sem kunna að hafa efasemdir um slíka fjárfestingu má heyra raddir sem segja að ekki sé hægt að bæta við fleiri verkefnum í sumar. Það er hins vegar rangt. Við getum því ekki látið slíkar röksemdir tefja bráðnauðsynlegar aðgerðir. Nú er tíminn til að bregðast við og það er í höndum stjórnvalda að tryggja að fjármagnið skili sér til Vegagerðarinnar.“
Langstærsti hluti 680 milljarða innviðaskuldar tengist vegakerfinu
Jóhanna Klara og Ingólfur segja einnig að í nýrri innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga sé lagt mat á viðhaldsþörf á stórum hluta þeirra innviða sem við treystum á í daglegu lífi. Niðurstöðurnar séu sláandi: uppsöfnuð viðhaldsskuld innviða á Íslandi sé nú komin upp í 680 milljarða króna. Það sem meira sé, lítið hafi gengið að vinna á skuldinni þrátt fyrir fjölda viðvarana undanfarin ár. Til samanburðar mældist innviðaskuldin 420 milljarðar króna í sambærilegri skýrslu sem gefin var út fyrir fjórum árum. Þau segja að langstærsti hluti þessarar skuldar tengist vegakerfinu, en þar sé áætlað að viðhaldsskuldin sé á bilinu 265–290 milljarðar króna. Það þurfi því ekki að koma á óvart að samgöngumálin brenni á fólki um allt land; almenningi, stjórnendum fyrirtækja og sveitarstjórnarfólki, enda sé ástand vegakerfisins víða ófullnægjandi. Þá segja þau að það sé mat höfunda innviðaskýrslunnar að ónóg fjárfesting og viðhald á undanförnum árum hafi leitt til versnandi ástands samgönguinnviða.
Innviðaráðherra tekur málið upp í ríkisstjórn
Í grein Jóhönnu Klöru og Ingólfs kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi undanfarið átt fundi með öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga. Á þeim fundum hafi komið skýrt fram að samgöngumálin séu eitt helsta áhyggjuefni sveitarstjórna. Á mörgum svæðum landsins sé ástand vegakerfisins þannig að það ógni jafnvel öryggi og velferð samfélaganna. Þau segja að í því ljósi sé það mikið fagnaðarefni að Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, skuli hafa lýst því yfir í fréttum Ríkisútvarpsins nýlega að hann hyggist óska eftir auknu fjármagni til viðhalds á vegakerfinu. Þau segja að hann hafi lagt áherslu á að Vegagerðin þurfi meira fjármagn strax í sumar svo hægt sé að hefjast handa við nauðsynlegar lagfæringar. Ráðherra hafi þegar sent erindi á fjármálaráðherra og ætli að taka málið upp í ríkisstjórn. Jóhanna Klara og Ingólfur segja þessa áherslu ráðherra bæði skynsamlega og tímabæra. „Ljóst er að núverandi staða samgönguinnviða kallar á tafarlausar aðgerðir og það er mikilvægt að stjórnvöld sýni í verki að þau ætli að bregðast við þessari þróun.“
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Vísir, 3. mars 2025.