Fréttasafn



18. nóv. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Fólk Reykjavík fær viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun

Hönnunarfyrirtækið Fólk Reykjavík hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2022 á afhendingu Hönnunarverðlauna Íslands sem fór fram í Grósku í gær. Árni Sigurjónsson, formaður SI, veitti Fólk Reykjavík viðurkenninguna. 

Á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er hægt að nálgast frekari upplýsingar um bestu fjárfestingu í hönnun, Hönnunarverðlaun Íslands og heiðursviðurkenningu, meðal annars rökstuðning dómnefndar og myndbönd með viðtölum við viðurkenningarhafana. 

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Ragna Ragnarsdóttir hönnuður, Hrefna Sigurðardóttir hönnuður, Tinna Gunnarsdóttir hönnuður, Birta Rós Brynjólfsdóttir hönnuður, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Fólk Reykjavík, Stefán Sigurðsson stjórnarmaður í Fólk Reykjavík, og Ólína Rögnudóttir, hönnuður. Myndina tók Aldís Pálsdóttir.

20x30cm-HVI22_W8A1124

Breyttar kröfur kalla á nýja nálgun þar sem sóun er ekki í boði 

Hér fer ávarp Árna sem hann flutti við afhendingu viðurkenningarinnar þar sem kemur fram rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu:  „Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi hönnunar og arkitektúrs á þessum vettvangi og í þessum góða hópi. Íslenskur efniviður, ríkuleg uppspretta hugmynda og öflugt hugvit, nýsköpun og hugmyndaauðgi hafa komið okkur á kortið í hönnunarheiminum, svo mjög að Ísland er öðrum ríkjum fyrirmynd á mörgum sviðum hvað þetta varðar. Glæsilegur íslenskur arkitektúr er okkur öllum sýnilegur um land allt og afar ánægjulegt er að sjá sífellt aukna virðingu fyrir menningararfinum og hönnun fortíðar í bland við nýja strauma og stefnur.

Hin græna iðnbylting og hið mikilvæga verkefni okkar allra að stemma stigu við loftslagsbreytingum teygir sig inn í alla geira þjóðlífsins. Hönnun bæði í sínum víðasta skilningi og hinum þrengsta er þar engin undantekning.

Breyttar kröfur kalla á nýja nálgun. Sóun er ekki í boði, hvort heldur sem er á efnivið eða orku. Aukin áhersla er á endurnýtingu og lengri endingartíma í sátt við umhverfi, loftslag og mannlíf, sem er vel. Hringrásarhagkerfið skipar sífellt veigameiri sess og við sem búum þetta land höfum svo ótal margt fram að færa í þessari baráttu. Þau verkefni sem tilnefnd eru til Hönnunarverðlaunanna í ár bera svo sannarlega vott um það, en þau eiga það sameiginlegt að huga að endurnýtingu efna, samfélagslegri ábyrgð, umhverfi, samstarfi, náttúru og nýsköpun. Ég óska ykkur öllum sem standið að þessum verkefnum innilega til hamingju með tilnefninguna og hvet ykkur áfram til góðra verka.

En áður en að því kemur, er það mér mikil ánægja og heiður að afhenda viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2022 en með henni er ætlunin að draga fram mikilvægi þess að hönnun sé höfð að leiðarljósi frá upphafi verka þar sem markmiðið er að auka verðmætasköpun og styrkja samkeppnishæfni. Við valið er horft til þess að hönnun fyrirtækisins sé einstök og framúrskarandi.

Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2022 hlýtur fyrirtækið Fólk Reykjavík.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

Fólk Reykjavík var stofnað árið 2017 með það að markmiði að leiða saman hönnun og framleiðslu, með áherslu á sjálfbærni og hringrás hráefna. Fyrirtækið notar náttúruleg og endurunnin hráefni eins og stein, málm, gler, pappír, vottað timbur úr sjálfbært nýttum skógum, endurunnið stál og endurunnin textíl. Úr þessum hráefnum hafa meðal annars verið hönnuð og framleidd borð, hillur, vasar, kertastjakar og ljós.

Góð íslensk hönnun hefur frá upphafi verið leiðarljós í rekstrinum. Dómnefnd telur að fyrirtækinu hafi tekist vel að sýna hverju hægt er að áorka með því að skapa vel hannaða og nytsamlega muni með sjálfbærni í huga. Fólk Reykjavík hefur átt í farsælu samstarfi við ýmsa íslenska hönnuði, og þannig aukið vöruúrval sitt, en framleiðsluferli og markaðssetning hafa gjarnan verið þrándur í götu sjálfstætt starfandi hönnuða. Í vöruþróuninni hefur verið horft til sjálfbærni í framleiðslu og að vörurnar séu endingargóðar.

Það er mat dómnefndar að fyrirtækið hafi haft jákvæð áhrif með fjárfestingum sínum í hönnun auk þess að vera hvatning fyrir önnur fyrirtæki að koma auga á möguleikana sem felast í samstarfi við góða hönnuði og að vinna með sjálfbærni og endurunnin hráefni.

Það er með sanni hægt að segja að fyrirtækið hafi lagt traust sitt á íslenska hönnun með eftirtektarverðum og góðum árangri og því hlýtur Fólk Reykjavík viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun þetta árið.

Ég vil óska Fólk Reykjavík til hamingju með viðurkenninguna fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2022.“

20x30cm-HVI22_W8A1158-1-_1669119756103Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Fólk Reykjavík, þakkar fyrir viðurkenninguna. Mynd/Aldís Pálsdóttir.

Plastplan fær Hönnunarverðlaun Íslands

20x30cm-HVI22_W8A1317Hönnunarstofan Plastplan er sigurvegari Hönnunarverðlauna Íslands 2022 fyrir hugsjón sína, hönnun og stuðning við efnahringrásina. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, veitti þeim Birni Steinari Blumenstein og Brynjólfi Stefánssyni, stofnendum Plastplan viðurkenninguna. Mynd/Aldís Pálsdóttir.

Landslagsarkitektinn Reynir Vilhjálmsson heiðraður

20x30cm-HVI22_W8A1341Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt hlýtur Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2022. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, afhenti Reyni verðlaunin. Mynd/Aldís Pálsdóttir.

20x30cm-HVI22_W8A1252Gestir fögnuðu Reyni vel þegar hann fékk afhenda viðurkenninguna. Mynd/Aldís Pálsdóttir.

Dómnefndina skipa Sigríður Sigurjónsdóttir, hönnuður og safnstjóri Hönnunarsafns Íslands sem er formaður dómnefndar, María Kristín Jónsdóttir, hönnuður, varaformaður, Ragna Fróðadóttir, hönnuður, Þorleifur Gunnar Gíslason, hönnuður, Arna Sigríður Mathiesen, arkitekt, Margrét Kristín Sigurðardóttir fyrir Samtök iðnaðarins og Daniel Byström, hönnuður og stofnandi Design Nation. 

Á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er hægt að nálgast myndir frá viðburðinum. Myndir/Aldís Pálsdóttir.

20x30cm-HVI22_W8A1132

20x30cm-HVI22_W8A1023


mbl.is, 18. nóvember 2022.

Vísir, 18. nóvember 2022.